Einar Rafn Eiðsson, leikmaður FH í Olís-deildinni, er á leið í aðgerð á öxl og verður því frá keppni um nokkurt skeið.
„Það er erfitt að fullyrða hversu lengi Einar Rafn verður frá, kannski átta vikur, plús eða mínus einhverjar vikur. Aðalatriðið er að hann nái góðum bata,” sagði Sigurgeir Árni Ægisson, framkvæmdastjóri handknattleiksdeildar FH, í viðtali við handbolti.is.
Einar meiddist í leik við Hauka í Hafnarfjarðarmótinu í ágúst, þar sem hann féll á öxlina. Vonir stóðu til þess í upphafi að hann gæti jafnað sig með sjúkraþjálfun en svo reyndist ekki vera og hann er á leiðinni í aðgerð.