Umfjöllun og viðtöl: Grótta - Afturelding 17-20 | Afturelding tók stigin tvö á Nesinu

Svava Kristín Gretarsdóttir skrifar
Úr leik KA og Gróttu.
Úr leik KA og Gróttu. Hulda Margrét

Afturelding fagnaði þriggja marka sigri á Gróttu í Hertz-höllinni í kvöld 17-20. Heimamenn eltu frá fyrstu mínútu og skyldu tvö mörk liðin að í hálfleik, 8-10

Fyrri hálfleikurinn bauð ekki uppá mikla skemmtun. Fyrsta mark leiksins kom á 7. mínútu eftir að liðin höfðu tapað hverjum boltanum á fæti öðrum í fyrstu sóknum leiksins. Sjö mörk voru skoruð á fyrsta korterinu og staðan þá 3-4 fyrir Aftureldingu og munurinn var tvö mörk þegar flautað var til loka fyrri hálfleiks, 8-10 fyrir gestunum.

Heimamenn misstu bæði Gunnar Dan Hlynsson og Daníel Örn Griffin snemma út vegna meiðsla og fór að draga allverulega af heimamönnum í síðarir hálfleik. Þeir eltu allan leikinn en hleyptu gestunum aldrei lengra en þremur mörkum frá sér.

Afturelding komst í þriggja marka forystu á lokakaflanum og héldu það út, lokatölur á Nesinu, 17-20, Aftureldingu í vil.

Af hverju vann Afturelding?

Þolimæði nr. 1, 2 og 3. Grótta spilaði sinn langa sóknarbolta og þurftu gestirnir að halda haus í gegnum leikinn sem og þeir gerðu. Afturelding spilaði virkilega góða vörn og fékk yfir 50% markvörslu að launum frá Arnóri Frey Stefánssyni.

Hverjir stóðu upp úr?

Arnór Freyr Stefánsson bar höfuð og herðar yfir aðra leikmenn í leiknum, með 52% markvörslu. Bergvin Þór Gíslason var atkvæðamestur manna í vörn og sókn, skoraði 5 mörk.

Stefán Huldar Stefánsson var alls ekki síðri í marki heimamanna, hann var með 14 bolta, 44% markvörslu og hélt sínum mönnum vel inní leiknum.

Hvað gekk illa?

Sóknarleikur Gróttu var átakanlegur, það vantaði leiðtoga til að klára sóknirnar. Þeir voru óagaðir og tóku lélegar ákvarðanir. Gæðin í leiknum voru ekki mikil, sóknarleikur Aftureldingar var ekki góður heldur enda lítið skorað í leiknum.

Hvað er framundan?

Alvöru próf fyrir Gróttu í næstu umferð er liðið mætir FH í Kaplakrika á sama tíma tekur Afturelding á móti Stjörnunni í Varmá.

Gunnar: Við æfðum 7 á 6 alla vikuna, það skilaði sér

„Hrós á Gróttuna, þeir eru að spila þessa fyrstu leiki frábærlega og í rauninni ættu þeir að vera með fleiri stig. Þeir eru bara ótrúlega vel skipulagðir og gera þetta vel. Það var mjög erfitt að brjóta þá aftur svo ég er virkilega ánægður að fara héðan með tvö stig“ sagði Gunnar Magnússon, þjálfari Aftureldingar, var hæstánægður með sigurinn á Gróttu eftir erfiðan leik

„Lykillinn í dag var vörn og frábær markvarsla, reyndar báðu megin“ sagði Gunnar, en markverðir liðanna voru í sviðsljósinu í dag

„Grótta hefur verið að redda sér á sjö á sex og við náðum að loka á það núna. Enda æfðum við það varnarlega alla vikuna, það var að stoppa sjö á sex. Ég er hrikalega ánægður með það hvernig við náðum að verjast því og það held ég að hafi skilað þessum stigum á endanum“ sagði Gunnar, en varnarleikur Aftureldingar var frábær í leiknum

„Ég vissi alltaf að við værum ekki að fara í neinar flugeldasýningar hérna, við þurftum að sýna karakter, þrautseigju og þurftum að hafa rosalega þolimæði. Við skorum bara 20 mörk en við fengum líka fáar sóknir. Við fáum ekki eins margar sóknir og í öðrum leikjum, svo við hefðum þurft að nýta þær betur“

„Að sama skapi var Gróttu vörnin góð og hann náttúrlega sjóðandi heitur í markinu. Útilínan hjá okkur var íssköld á móti, við vorum í erfiðleikum með langskotin, hann var með okkur í vasanum þar. Það var virkilega erfitt að landa þessu en ótrúlega ánægður með þessi tvö stig“ Sagði Gunnar sem hrósaði þar Stefáni Huldar Stefánssyni, markverði Gróttu, að lokum

Arnar Daði: Þetta er bara það sem er boðið uppá í efstu deild á Íslandi

„Ógeðslega lélegt“ voru fyrstu viðbrögð hjá Arnari Daða Arnarssyni, þjálfara Gróttu eftir tapið gegn Aftureldingu á heimavelli í kvöld

„Ég veit ekki af hverju það er alltaf verið að tala um lítil gæði, þetta er bara það sem er boðið uppá í efstu deild á Íslandi. Fjölmiðlamenn og sérfræðingar verða bara að fara að sætta sig við það“

„Auðvitað hefðum við vilja spila betur, enn frammistaðan hjá öllu liðinu var ekki nægilega góð fyrir utan hjá dýrinu í markinu“ sagði Arnar Daði sem hrósar að sjálfsögðu Stefáni Huldari frammistöðuna í marki liðsins

Arnar Daði segir þó að varnarlega hafi liðið verið ágætt en það vantaði talsvert uppá sóknarlega

„Mínir fyrstu þrír menn fyrir utan voru 4/20, svo kom Jóhann Reynir inn með 1/4, svo þetta eru þrjú mörk úr 24 skotum. Þú vinnur ekki leik þannig“ sagði Arnar Daði en þetta eru vissulega fimm mörk en ekki þrjú, engu að síður afleidd skotnýting

„Það er samt ótrúleg seigla í þessu liði að enda bara þremur mörkum undir með þessa skotnýtingu. Við lentum í áföllum í leiknum líka, Daníel Griffin og Gunnar Dan fara meiddir af velli svo við neyddumst til að hætta í sjö á sex“ sagði Arnar Daði

Arnar Daði tekur undir það að leikmönnum skorti sjálfstraust og það vanti leikmenn til að taka loka ákvörðun í sókninni

„Það er ekkert launungamál að ég er með unga og óreynda stráka sem eru að taka sín fyrstu skref. Það er margt að læra, við erum ekkert að fara yfir andstæðingana á hverjum degi, við erum líka bara að kenna þeim handbolta og að spila sem lið, þetta tekur bara tíma“

„Enn við förum ekkert í felur með það að þessi frammistaða var ekki góð í dag“ sagði Arnar Daði að lokum

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira