Umfjöllun og viðtöl Þór - FH 19-24 | Góður loka­kafli tryggði FH sigur fyrir norðan

Arnar Geir Halldórsson skrifar
FH-ingar höfðu betur á Akureyri.
FH-ingar höfðu betur á Akureyri. Vísir/Hulda Margrét

Nýliðar Þórs fengu FH-inga í heimsókn í 2.umferð Olís-deildar karla í handbolta í Íþróttahöllinni á Akureyri í kvöld en bæði lið mættu stigalaus til leiks eftir að hafa tapað í hörkuspennandi viðureignum í fyrstu umferð.

Um var að ræða fyrsta heimaleik Þórs í efstu deild síðan árið 2006. Þeir byrjuðu leikinn betur og skoruðu fyrstu þrjú mörk leiksins en þegar líða tók á fyrri hálfleikinn jafnaðist leikurinn.

Þór komst í 4-3 á 11.mínútu en í kjölfarið skoruðu þeir ekki mark fyrr en á 23.mínútu þegar Garðar Már Jónsson minnkaði muninn í 5-7. Tveggja marka munur hélst með liðunum út hálfleikinn og staðan í leikhléi 8-10 fyrir FH.

FH-ingar skoruðu fyrstu tvö mörk síðari hálfleiks og voru með frumkvæðið allan tímann. Þórsarar neituðu hins vegar að gefast upp og náðu að minnka muninn niður í eitt mark þegar þrettán mínútur lifðu leiks.

Eins til tveggja marka munur hélst með liðunum þar til skammt var eftir en þá stigu gestirnir á bensíngjöfina og unnu að lokum fimm marka sigur, 19-25.

Afhverju vann FH?

Einstaklingsgæði lykilmanna FH liðsins komu því yfir línuna í kvöld gegn baráttuglöðum Þórsurum. Eftir góða byrjun Þórs tóku FH-ingar völdin um miðbik fyrri hálfleiks og héldu þeim út leikinn.

Varnarleikur beggja liða var góður en FH-ingar hafa fleiri vopn í sínu vopnabúri sóknarlega og því fór sem fór.

Bestu menn vallarins

Leikurinn var á löngum stundum einvígi tveggja frábærra markvarða því Phil Döhler (FH) og Jovan Kukobat (Þór) unnu svo sannarlega fyrir kaupinu sínu í dag. Jovan með 16 skot varin en Döhler 18.

Á lokakaflanum þegar FH vantaði smá töfra steig spilandi aðstoðarþjálfarinn Ásbjörn Friðriksson upp og kláraði leikinn fyrir sitt lið.

Hvað gekk illa?

Uppstilltur sóknarleikur Þórs. Nýliðarnir stóðu vörnina vel en of langir dauðir kaflar í sóknarleiknum fóru með möguleika liðsins í kvöld.

Liðið ræður mjög illa við að leika án örvhentrar skyttu og alveg ljóst að Þórsarar þurfa að fylla það skarð sem Vuk Perovic átti að fylla ef þeir ætla að gera sig gildandi meðal þeirra bestu.

Hvað er næst?

Áfram heldur Olís-deildin af fullum krafti. Í 3.umferð fara Þórsarar í heimsókn í Breiðholtið og mæta ÍR á meðan FH fær Fram í heimsókn.

Sigursteinn: Vissum að þetta yrði þolinmæðispróf fyrir okkur

Sigursteinn Arndal, þjálfari FH, var að vonum glaður í leikslok.

„Þetta var í fyrsta lagi góður sigur. Við vissum að þetta yrði mikið þolinmæðispróf fyrir okkur og ég er ánægður með mitt lið að standast það.“

„Við undirbjuggum okkur mjög vel. Við sáum Þórsara gefa Aftureldingu hörkuleik í fyrstu umferð. Þeir eru þolinmóðir; spila langar sóknir og við þurftum að eyða miklum tíma í vörn. Við stóðumst það í dag,“ sagði Sigursteinn.

Egill Magnússon ferðaðist með FH-ingum norður en var svo ekki með í leiknum.

„Hann er að glíma við smávægileg meiðsli en kemur sterkur inn von bráðar,“ sagði Sigursteinn.

Phil Döhler varði eins og óður maður allan tímann og vakti því furðu að hann skyldi vera tekinn af velli um miðbik síðari hálfleiks en það átti sér eðlilegar skýringar.

„Hann fékk högg á fingur en hann er frábær markvörður,“ sagði Sigursteinn.

Halldór Örn: Erum ekki fullmannaðir

Halldór Örn Tryggvason, þjálfari Þórs, var svekktur í leikslok en reyndi að líta á björtu hliðarnar.

„Þetta var hörkuleikur framan af. Það var margt jákvætt en drullu svekkjandi að við skulum klára leikinn svona.“

„Mér fannst jákvætt að sjá ungu peyjana koma sterka inn í sóknina. Það sýnir að við erum með góða breidd en okkur sárvantar vinstri hönd í sóknina,“ segir Halldór.

Þórsarar höfðu samið við serbnesku hægri skyttuna Vuk Perovic í sumar en skömmu fyrir mót kom í ljós að hann væri ekki löglegur með liðinu. Halldór segir að enn standi yfir leit að hægri skyttu.

„Við erum ekki fullmannaðir og erum enn að leita. Við vitum ekki hvernig það fer og í raun ekkert sem ég get sagt um það.“

Þórsarar töpuðu naumlega fyrir Aftureldingu í fyrstu umferð en Halldór kveðst bjartsýnn á framhaldið.

„Liðsheildin er sterk. Við erum í þessari deild til að gera hluti. Við viljum gera þetta almennilega og það er mikilvægt að hafa öfluga liðsheild því við vitum að þetta verður erfitt,“ sagði Halldór sem var að lokum spurður út í frammistöðu Jovan Kukobat.

„Jovan er mjög góður markvörður. Við erum með frábært markvarðateymi. Arnar (Þór Fylkisson) er mjög góður líka og þeir vinna mjög vel saman. Þeir voru báðir góðir gegn Aftureldingu og Jovan fann sig í dag. Við erum lánsamir að hafa þá báða,“ sagði Halldór að endingu.

Bein lýsing

Leikirnir
    Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.