Handbolti

Snorri Steinn: Eflaust góður sjónvarpsleikur

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Ha?! Snorri Steinn Guðjónsson hissa á svip.
Ha?! Snorri Steinn Guðjónsson hissa á svip. vísir/hulda margrét

Snorri Steinn Guðjónsson, þjálfari Vals, var ánægður með sigur á FH, 30-33, í fyrsta leik liðsins í Olís-deild karla.

„Við vorum ekki góðir í fyrri hálfleik. Við byrjuðum ekki vel á meðan FH-ingarnir voru flottir og skoruðu mikið á okkur úr hröðum sóknum. Ég var ánægður að vera bara einu marki undir í hálfleik, leið vel með það og hafði trú á því að við myndum spila aðeins betur myndum við sigla þessu heim sem og við gerðum,“ sagði Snorri í samtali við Vísi eftir leik.

Valsmenn eru með mikla breidd, sennilega þá mestu í deildinni, og Snorri hefur úr mörgum góðum leikmönnum að velja. Í seinni hálfleik hitti hann á réttu blönduna fyrir utan, með Róbert Aron Hostert hægra megin, Tuma Stein Rúnarsson á miðjunni og Magnús Óla Magnússon vinstra megin.

„Það gekk mjög vel. Ég er með góðan og breiðan hóp. Það getur verið kúnst að finna út úr þessu og það var eitt og annað sem leiddi til þess að við settum Robba hægra megin og Tuma á miðjuna. Þeir voru flottir í dag,“ sagði Snorri.

Hann vonast til að Valsmenn bæti varnarleik sinn í næstu leikjum þótt hann hafi ekki verið alls kostar ósáttur með hann í kvöld.

„Ég er ekki ánægður að fá á mig 30 mörk og verð að skoða þetta aftur. Við erum samt að spila á móti einu besta sóknarliði deildarinnar. Það var fullt af góðum hlutum en líka eitthvað sem þarf að laga. Við viljum ekki fá okkur 30 mörk en þegar ég skoða leikinn aftur kemst ég kannski á aðra skoðun varðandi varnarleikinn,“ sagði Snorri.

„Þetta var góður leikur tveggja góðra liða, jafn og spennandi og eflaust góður sjónvarpsleikur.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×