Körfubolti

Bentu Valencia á fótboltahæfileika Martins

Sindri Sverrisson skrifar
Martin Hermannsson fór til Valencia frá Berlín í sumar.
Martin Hermannsson fór til Valencia frá Berlín í sumar. mynd/@valenciabasket

Martin Hermannsson, landsliðsmaður í körfubolta, hefði eflaust getað náð langt í fótbolta hefði hann farið þá braut en í staðinn leikur hann í bestu landsdeild Evrópu í körfubolta.

Martin gekk í raðir Valencia í sumar eftir að hafa orðið Þýskalandsmeistari og bikarmeistari með Alba Berlín. Hann lék einnig með þýska liðinu í EuroLeague og verður þar á ferðinni með Valencia í vetur.

Á Twitter-síðu EuroLeague, sterkustu Evrópukeppninni í körfubolta, birtist klippa í gær þar sem sjá mátti Martin sýna fótboltatilþrif með körfuboltann. Var knattspyrnuliði Valencia þar bent á að ef þörf krefði í vetur þyrfti ekki að sækja vatnið yfir lækinn, þar sem Martin væri jafnvígur á körfu- og fótbolta.

Martin hefur reyndar áður sýnt fótboltalega tilburði með körfuboltann, þegar hann skallaði boltann eftirminnilega í leik gegn Portúgal í undankeppni EM í fyrra.

Valencia mætir Baskonia 20. september í fyrsta leik sínum í spænsku deildinni á komandi leiktíð. Áætlað er að fyrsti leikur liðsins í EuroLeague verði gegn franska liðinu ASVEL, sem er í eigu Tony Parker, þann 1. október.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×