Körfubolti

Sænskur landsliðsmaður í Stjörnuna: Leit alltaf upp til Hlyns og þekki Ægi

Sindri Sverrisson skrifar
Alexander Lindqvist segir skemmtilegt fyrir strákana sína að prófa að búa á Íslandi.
Alexander Lindqvist segir skemmtilegt fyrir strákana sína að prófa að búa á Íslandi. mynd/stöð 2

Sænski landsliðsmaðurinn Alexander Lindqvist er fluttur til Íslands með fjölskyldu sinni og mun spila með deildarmeisturum Stjörnunnar á komandi körfuboltaleiktíð.

„Ég talaði við nokkur sænsk félög en á síðustu stundu hringdi Stjarnan. Mér fannst þetta hljóma eins og skemmtileg reynsla, og að það yrði gaman að spila með leikmönnum sem ég mætti í Svíþjóð,“ sagði Alexander við Svövu Kristínu Gretarsdóttur í Sportpakkanum á Stöð 2. 

Viðtalið má sjá hér að neðan.

Alexander er 29 ára gamall framherji sem ætti að styrkja lið Stjörnunnar umtalsvert mikið. Hann hefur leikið hefur stærstan hluta ferilsins með toppliðum í sænsku úrvalsdeildinni, lengst af með Södertälje, en einnig í Grikklandi og Belgíu og síðasta vetur lék hann í næstefstu deild Spánar.

Í Svíþóð hefur Alexander meðal annars leikið gegn Hlyni Bæringssyni og Ægi Þór Steinarssyni, nýjum samherjum sínum hjá Stjörnunni, sem og fleiri Íslendingum.

„Hlynur var alltaf frábær í sænsku deildinni og einn af þeim sem að ég leit alltaf upp til. Það verður því mjög gaman að spila með honum. Við Ægir spiluðum raunar saman þegar við vorum yngri, í búðum í Frakklandi, svo ég þekki hann aðeins. Það verður gaman að spila með honum því hann spilar hratt og með mikilli orku,“ segir Alexander, sem á annars eftir að kynnast Dominos-deildinni betur:

„Ég veit ekki margt, ef ég á að vera hreinskilinn. Ég veit að bestu liðin eiga að vera svipuð og í sænsku deildinni, en þau sem eru neðar eru kannski eitthvað lakari, en ég kom bara til að njóta þess að spila í besta liðinu og markmiðið okkar er að vinna. Við stefnum á titilinn,“ sagði Alexander.

Strákarnir geta lært smá íslensku

Alexander og fjölskylda hans hafa verið í sóttkví síðustu fimm daga eftir komuna til landsins en eru að koma sér vel fyrir:

„Já, þetta verður skemmtileg reynsla fyrir þau líka. Strákarnir geta lært smá íslensku í leikskólanum,“ sagði Alexander, og sagði kórónuveirufaraldurinn ekki hafa neitt um það að segja að hann kæmi til Íslands:

„Nei, í raun ekki. Ég ætlaði mér alltaf að spila, hvar sem það yrði í Evrópu. Ísland hefur tekist á við þetta með sínum hætti, sem ég hef trú á enda fáum við að spila fyrir framan áhorfendur.“

Stjarnan sækir vel skipað lið Vals heim í fyrstu umferð Dominos-deildarinnar en tímabilið á að hefjast 1. október.

Klippa: Sportpakkinn - Stjarnan fær sænskan landsliðsmann


Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.