Handbolti

Kári gaf lítið fyrir ásakanir um leikaraskap: „Þetta er til á teipi“

Smári Jökull Jónsson skrifar
Kári Kristján Kristjánsson og félagar í ÍBV urðu meistarar meistaranna og fylgdu því svo eftir með sigri á ÍR í kvöld.
Kári Kristján Kristjánsson og félagar í ÍBV urðu meistarar meistaranna og fylgdu því svo eftir með sigri á ÍR í kvöld. vísir/hag

„Þetta var alls ekki létt og ljúft því fyrstu 25 mínúturnar þá vorum við ekki til staðar. Við fáum á okkur 17 mörk í fyrri hálfleik og það er bara of mikið,“ sagði Kári Kristján Kristjánsson línumaður Eyjamanna eftir sjö marka sigurinn á ÍR, 38-31, í fyrsta leik Olís-deildarinnar í handknattleik.

„Við skorum nóg af mörkum en við þurfum að skipta um varnarleik sem við eigum alla jafna ekkert að þurfa að vera að gera. Sjö marka sigur, við tökum það“.

ÍR-liðinu er af flestum spáð frekar neðarlega í deildinni í vetur enda misst mikið af lykilmönnum.

„Þeir höfðu engu að tapa. Við erum sigurstranglegri fyrir leikinn og eigum að vera það, lokatölurnar kannski bara eðlilegar en við áttum að vinna stærra. Auðvitað berjast þeir og fara inn í leikinn með enga pressu.“

Kári sagði undirbúning Eyjamanna hafa gengið vel fyrir tímabilið.

„Það er allt eins og í lygasögu, við erum bara búnir að vera duglegir. Þetta er mjög skrýtið hvernig allt hefur verið en það er flott að boltinn sé farinn að rúlla og maður heldur varla geðheilsunni ef þetta fer að stoppa aftur.“

Að lokum langaði blaðamanni að vita hvað Kári hefði að segja um þau köll sem komu frá ÍR-bekknum um að hann hefði sýnt leikaraskap þegar einn ÍR-ingurinn var rekinn af velli fyrir brot á Eyjamanninum hrausta.

„Þetta er til á teipi Smári minn, þú getur kíkt á þetta,“ sagði Kári glottandi og gaf lítið fyrir þetta tal.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×