Körfubolti

Martin og Haukur Helgi mætast strax í annarri umferð

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Martin Hermannsson er mættur í spænska körfuboltann og verður reglulega í beinni á Stöð 2 Sport í vetur. Hér er hann í leik með Alba Berlín á móti Real Madrid.
Martin Hermannsson er mættur í spænska körfuboltann og verður reglulega í beinni á Stöð 2 Sport í vetur. Hér er hann í leik með Alba Berlín á móti Real Madrid. EPA-EFE/HAYOUNG JEON

Þrír íslenskir landsliðsmenn í körfubolta verða í sviðsljósinu í spænsku úrvalsdeildinni í körfubolta í vetur og það verður Íslendingaslagur strax í annarri umferðinni.

Úrvalsdeildin í körfubolta á Spáni mun kenna sig við Endesa í vetur og nú hafa menn gefið út leikjadagskrána fyrir komandi tímabil sem hefst 19. september næstkomandi.

Stöð 2 Sport hefur tryggt sér sýningarréttinn á deildinni. Þar leika þrír af bestu körfuboltamönnum Íslands eða þeir Martin Hermannsson með Valencia, Haukur Helgi Pálsson með Andorra og Tryggvi Snær Hlinason með Zaragoza. Þetta er fyrsta tímabil Martins og Hauks í deildinni en þetta er annað tímabil Tryggva með Zaragoza liðinu.

Í fyrstu umferðinni þá mæta Martin og félagar TD Systems Baskonia á útivelli, Haukur Helgi og félagar í MoraBanc Andorra fá UCAM Murcia í heimsókn og loks spila Tryggvi Snær og félagar í Casademont Zaragoza á móti Iberostar Tenerife á Kanaríeyjum.

Fyrstu leikir Martins, Hauks Helga og Tryggva fara allir fram sunnudaginn 20. september.

Fyrsti Íslendingaslagurinn verður strax í annarri umferðinni því þá fá Martin og félagar í Valenica heimsókn frá Hauki Helga og félögum í MoraBanc Andorra. Leikurinn fer fram miðvikudaginn 23. september.

Næsti Íslendingaslagurinn verður síðan laugardaginn 24. október þegar Martin fær aftur heimsókn frá landa sínum þegar Tryggvi Snær Hlinason og félagar í Zaragoza mæta til þess að spila við Valencia liðið.

Íslensku strákarnir verða svo allir búnir að mætast um mánaðamótin október-nóvember en þá kemur Tryggvi í heimsókn til Hauks Helga og félaga í Andorra.

Það má nálgast alla leikjadagskrána með því að smella hér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×