Körfubolti

LeBron eftir leikinn í nótt: Við svarta fólkið í Bandaríkjunum erum skíthrædd

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
LeBron James í leik Los Angeles Lakers á móti Portland Trail Blazers í nótt.
LeBron James í leik Los Angeles Lakers á móti Portland Trail Blazers í nótt. Getty/Kevin C. Cox

Bandaríski körfuboltamaðurinn LeBron James hafði fulla ástæðu til að gleðjast eftir frábæra frammistöðu og stórsigur í úrslitakeppni NBA-deildarinnar í nótt en svo var þó ekki.

LeBron James og félagar heiðruðu Kobe Bryant með besta mögulega hætti eða með því að rúlla yfir Portland Trail Blazers og komst í 3-1 í einvígi þar sem þarf að vinna fjóra leiki.

LeBron James átti annan stórleikinn í röð og var núna með 30 stig og 10 stoðsendingar á aðeins 28 mínútum.

Eftir leik var kappinn tekinn í viðtal en hann var að hugsa um annað en körfubolta. Leikurinn fór fram á Kobe Bryant deginum og þá var hann líka búinn að fá fréttirnar af því þegar óvopnaður blökkumaður að nafni Jacob Blake var skotinn mörgum sinnum af lögreglumönnum í Kenosha í Wisconsin fylki.

„Ég get ekki notið sigurs í úrslitakeppninni núna sem er mjög leiðinlegt,“ sagði LeBron James.

LeBron James talaði um skotárásina en vegna hennar hafa orðið mótmæli víða í Bandaríkjunum. Jacob Blake var skotinn í bakið þegar hann hallaði sér inn í bílinn sinn þar sem sátu börnin hans þrjú.

„Við svarta fólkið í Bandaríkjunum erum hrædd. Svartir menn, svartar konur, svört börn. Við erum, við erum skíthrædd,“ sagði LeBron James.

Það tók líka á að spila á Kobe Bryant deginum en Lakers liðið lék í sérstökum Mamba búningum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×