Körfubolti

Aðeins einn unnið fleiri leiki í úrslitakeppni en LeBron

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
LeBron fær einstaka sinnum hjálp frá samherjum sínum.
LeBron fær einstaka sinnum hjálp frá samherjum sínum. Ashley Landis/Getty Images

Það voru mikil vonbrigði fyrir LeBron James að komast ekki í úrslitakeppni NBA-deildarinnar á síðustu leiktíð. Hann var fenginn til Los Angeles Lakers til lyfta liðinu upp í hæstu hæðir.

Lengi vel stefndi í að LeBron og ungur kjarni Lakers-liðsins sem hafði ekkert getað í nokkuð ár myndi ná sæti í úrslitakeppninni. LeBron þurfti hins vegar að setja í „úrslitakeppnisgírinn“ fyrr en hann ætlaði. Svo fór það svo að LeBron meiddist, Lakers komst ekki í úrslutakeppnina og endaði á því að losa sig við ungu leikmennina fyrir stórstjörnuna Anthony Davis.

Eitthvað sem liðið sér ekki eftir í dag en í fyrsta skipti í áratug náði liðið 1. sæti í Vesturdeildinni. Hins vegar hafði liðið ekki verið sannfærandi síðan NBA-kúlan hófst og LeBron ekki alveg verið samkvæmur sjálfum sér. Það kom samt sem áður á óvart þegar liðið tapaði óvænt fyrir Portland í fyrsta leik liðanna í úrslitakeppninnar.

Venjulega hefur LeBron notað síðustu leiki tímabilsins til að gíra sig upp í úrslitakeppnina. Eðlilega spila leikmenn deildarinnar ekki alla leiki á fullu gasi alltaf enda 82 leikir í hefðbundinni deildarkeppni og svo úrslitakeppni ofan á það.

Ekki nóg með það þá hefur hann venjulega lokað öllum samfélagsmiðlum – þar sem hann er frekar virkur allan ársins hring – og ekki gefið neitt af sér nema þau viðtöl sem hann þarf að fara í á vegum deildarinnar.

LeBron – sem er á sínu 17. ári í deildinni – virtist þó ekki alveg vera í þeim gír í síðustu leikjum Lakers fyrir úrslitakeppnina og missti af einum leik vegna meiðsla. Þá hefur hann ekki enn lokað samfélagsmiðlum einfaldlega vegna þeirra atburða sem hafa átt sér stað í Bandaríkjunum undanfarna mánuði.

LeBron vill fá fólk á kjörstað í mögulegum forsetakosningum og nýta rödd sína til góðs. Því virðist hann hafa tekið þá ákvörðun að halda samfélagsmiðlum opnum sem og að gefa viðtöl sem hann er ekki vanur.

LeBron átti persónulega góðan leik er Lakers tapaði fyrir Portland. Hann var með þrefalda tvennu, 23 stig, 17 fráköst og 16 stoðsendingar. Þegar Lakers valtaði síðan yfir Portland í öðrum leik liðanna var LeBron aðeins með tíu stig og gaf boltann oftar frá sér en hann skoraði utan af velli.

Í nótt náði hann hins vegar að tengja saman persónulega góðan leik sem og sigur. Undarleg myndlíking hans eftir leik lýsti leik hans þó ágætlega.

„Stundum fór ég hratt, hægt eða miðlungs. Þetta var eins og að keyra beinskiptan bíl, stundum var ég í fyrsta gír og stundum var ég í sjötta gír. Ég get lesið leikinn og brugðist við því gerðist, skipti engu máli hvort ég væri á hraðbrautinni eða í íbúðahverfi. Að geta verið á mismunandi hraða eftir því hversu mikil umferð er lykillinn að árangri,“ sagði James í mjög svo áhugaverðu viðtali eftir leik.

James endaði með 38 stig, 12 fráköst og átta stoðsendingar. Frank Vogel, þjálfari liðsins, hróstaði honum í hástert eftir leik.

Sigurinn þýðir að LeBron er kominn í 2. sæti yfir flesta sigra sögunnar í úrslitakeppni NBA-deildarinnar. Hann tók fram úr Tim Duncan í nótt og stefnir á 1. sætið en þar situr Derek Fisher.

Þó sigur LeBron með Cleveland Cavaliers árið 2017 – þegar liðið kom til baka gegn Golden State Warriors eftir að vera 3-1 undir – mun eflaust alltaf vera hans helsta afrek á körfuboltavellinum. Að því sögðu er ljóst að LeBron getur náð ákveðnum hápunkti, innan- sem og utan vallar á komandi vikum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×