Skoðun

Meira en minna

Logi Einarsson skrifar

Samvinna og samhjálp eru meðal þess sem fleytt hefur mannkyninu áfram og skapað því einstaka stöðu í náttúrunni. Við höfum ekki alltaf umgengið hana af nægri virðingu en það er önnur saga. Þau samfélög sem hafa byggt á mestum mannréttindum og jöfnuði skara fram úr öðrum. Þetta er nauðsynlegt að hafa í huga nú þegar við glímum við skæðan veirufaraldur og afleiðingar hans.

Ólíkt síðustu kreppu þegar fall krónunnar bitnaði strax á lífskjörum þorra Íslendinga þá leggst þessi þyngst og harðast á einstaka atvinnuvegi og afmarkaðan hóp fólks, sem missir vinnuna með tilheyrandi tekjufalli.

Í vor var ríkissjóði beitt, með áður óþekktum hætti, til að verja fyrirtæki fyrir áhrifum Covid-19 faraldursins sem leiddi til algjörs eftirspurnarhruns í mörgum atvinnugreinum. Hugsunin var að þau hefðu bolmagn til að komast í gegnum hremmingarnar, sem enginn vissi hve lengi mundu vara, og væru í startholunum þegar hlutirnir kæmust í eðlilegra horf. Aðgerðirnar hafa vissulega reynst misvel en ríkur samhljómur var í samfélaginu um að grípa þyrfti til stórra almennra aðgerða. Fjármálaráðherra sagði t.d. af því tilefni að ríkisstjórnin hygðist gera meira en minna fyrir fyrirtækin í landinu í þessu skyni.

Það er mikið áhyggjuefni að ríkisstjórnin virðist ekki reiðubúin til að verja einstaklinga og heimilin með beinum hætti í nægilega ríkum mæli. Það mun reynast afdrifaríkt; auka ójöfnuð, skapa sundrungu og vega að mikilvægum samfélagslegum stoðum. Mikilvægasta verkefni stjórnvalda næstu misserin er að styðja við efnahagslífið og verja félagslegan stöðugleika.

Sköpum störf

Í fyrsta lagi þarf að ráðast í umfangsmiklar fjárfestingar og skapa fjölbreytt störf um allt land sem henta fólki af báðum kynjum, ólíkum aldri með mismunandi bakgrunn. Forgangsraða í þágu arðbærra verkefna sem eru í takt við loftlagsmarkmið okkar og gera okkur mögulegt að feta okkur í átt að grænni framtíð. Þá eigum eigum við viðurkenna fjársvelti margra mikilvægra stofnanna undanfarin ár og manna þær með fullnægjandi hætti. Þetta á jafnt við um skóla, heilbrigðisþjónustu lögreglu og margvíslega aðra þjónustu. Slíkt skapar störf og bætir einnig þjónustu við almenning og atvinnulíf í leiðinni. Aðgerðirnar eru skjótvirkar; skapa vinnu og hafa góð áhrif á vellíðan og öryggi fólks.

Virkjum hugvitið

Í öðru lagi verðum við að greiða aðgengi fólks að menntun. Bæði ungs fólks sem mun bera uppi lífskjör okkar næstu áratugi og einnig gera fólki á öllum aldri mögulegt að sækja sí- og endurmenntun. Það er ekki síst mikilvægt í kvikum heimi þar sem breytingar eiga sér stað á gífurlegum hraða. Samhliða þessu verðum við að styðja mikið betur við nýsköpun fyrirtækja, með það fyrir augum að byggja meira á hugviti, í stað þess að reiða okkur um of á einfalda frumframleiðslu sem byggir á auðlindanýtingu. Þetta er langtímaverkefni sem krefst þolinmæði. Það er skynsamlegt að skjóta fleiri stoðum undir atvinnulífið og minnka þannig áhættuna sem skapast við ýmis konar áföll eins og við upplifum nú. Og beinlínis lífsnauðsyn í þróun þar sem sífellt færri einstaklingar munu standa undir verðmætasköpuninni, vegna lýðfræðilegri breytinga.

Verjum tekjur fólks

Í þriðja lagi verður að gera allt til að verja það fólk sem missir samt sem áður vinnuna til lengri eða skemmri tíma. Það verður að hækka grunnatvinnuleysisbætur og lengja tekjutengingu þeirra. Það er nauðsynlegt til að að létta álagi af heimilum, ekki síst börnum sem eru á viðkvæmu þroskaskeiði og í mestri áhættu vegna óvissu og neikvæðra áhrifa. Það er auk þess skynsamlegt til að viðhalda neyslu í samfélaginu og blása þannig í glæður efnahagslífsins.

Hlutverk stjórnmála er að varða veginn til meiri hagsældar fyrir allan almenning og gera honum kleift að vaxa á styrkleikum sínum um leið og við bjóðum upp á þéttriðið velferðarnet sem hjálpar þeim sem af ýmsum ástæðum missa tímabundið fótanna. Aðstæðurnar nú krefjast snarpra en yfirvegaðra bragða og markmiðið verður að þessu sinni að vera að gera meira en minna fyrir allt fólk í landinu.

Höfundur er þingmaður og formaður Samfylkingarinnar.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Skoðun

Sjá meira


×