Körfubolti

KKÍ tekur endan­lega á­kvörðun um Domin­os-deildirnar á mið­viku­dag

Anton Ingi Leifsson skrifar
Helena Sverrisdóttir og Jakob Sigurðarson vita enn ekki hvort þau spila meiri körfubolta á þessari leiktíð.
Helena Sverrisdóttir og Jakob Sigurðarson vita enn ekki hvort þau spila meiri körfubolta á þessari leiktíð. vísir/bára/samsett
Dominos-deildum karla og kvenna hefur enn ekki verið aflýst en Hannes S. Jónsson, formaður KKÍ, tilkynnti í gær að deildunum hafi verið frestað næstu fjórar vikurnar.

Í tilkynningu frá KKÍ sem barst fjölmiðlum fyrir skömmu kemur þetta fram en þar segir að „öllum er ljóst að uppi eru algjörlega fordæmalausar aðstæður í þjóðfélaginu vegna heimsfaraldurs kórónaveirunnar.“

Stjórn og starfsmenn KKÍ hafa setið að fundi í morgun og það verið ákveðið að aflýsa mörgum deildum en efstu tveimur deildunum í karla- og kvennaflokki verður að minnsta kosti ekki aflýst þangað til á miðvikudag.

Þangað til ætla forsvarsmenn KKÍ að funda með forystufólki í landinu, um hvað sé til ráða. Þó sé ljóst að mótahald verði ekki með þeim hætti sem tilgreint er í reglugerð um körfuknattleiksmót.

Fréttin hefur verið uppfærð.

Tilkynning KKÍ:

1. Íslandsmóti 2019-2020 er lokið í eftirfarandi flokkum og deildum. Í umræddum deildum og flokkum verður enginn deildar- eða Íslandsmeistari krýndur tímabilið 2019-2020.

    * 2. deild karla

    * 2. deild kvenna

    * 3. deild karla

    * unglingaflokkur karla

    * stúlknaflokkur

    * drengjaflokkur

    * 10. flokkur drengja og stúlkna

    * 9. flokkur drengja og stúlkna

    * 8. flokkur drengja og stúlkna

    * 7. flokkur drengja og stúlkna

    * minnibolti 11 ára drengja og stúlkna

    * minnibolti 10 ára drengja og stúlkna

    * minnibolti 9 ára og yngri, drengja og stúlkna

2. Íslandsmóti Dominosdeilda karla og kvenna ásamt 1. deilda karla og kvenna er frestað meðan samkomubann er. Endanleg ákvörðun um framhald þessara deilda verður tilkynnt í síðasta lagi á miðvikudag 18.3.2020 þegar íþróttahreyfingin hefur fengið rými til að ræða frekar við sóttvarnarlækni og almannavarnir um þá stöðu sem er uppi og með hvaða hætti samkomu- og nálægðarbann hefur áhrif á íþróttahreyfinguna.

Ef stjórn KKÍ ákveður að ljúka keppnistímabilinu 2019-2020 í tveimur efstu deildum karla og kvenna, mun stjórnin funda áfram og ræða hvort og þá hvernig lið verði flutt milli deilda. Ótímabært er að fara nánar út í það á þessari stundu.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×