Erlent

Segja fyrir­tæki í eigu Sam­herja hafa greitt fyrir kvóta í gegn um lög­manns­stofur

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
visir-img
Vísir/Sigurjón

Namibískt dótturfyrirtæki Samherja greiddi fyrir aflaheimildir með millifærslum inn á reikning tveggja lögmannsstofa. Þetta kemur fram í frétt The Namibian í dag. Þar kemur fram að greiðslurnar hafi átt að renna í verkefni sem styrkja áttu félagslega innviði í Namibíu. Því er hins vegar haldið fram að Swapo-flokkurinn, stjórnarflokkurinn í Namibíu, hafi nýtt hluta upphæðarinnar til þess að fjármagna kosningabaráttu sína.

RÚV greindi frá málinu fyrst íslenskra miðla. Namibian greinir frá því að fyrirtæki í eigu Samherja hafi greitt um 51 milljón namibískra dollara, eða um 467 milljónir króna, inn á reikninga lögmannsstofanna De Klerk Horn and Coetzee og Sisa Namandje and Co. Namibian fullyrðir að fjármunirnir hafi farið í gegn um reikninga lögmannsstofanna tveggja árið 2017.

Namibian hefur þá eftir minnst þremur embættismönnum innan úr sjávarútvegsráðuneyti Namibíu að greiðslurnar hafi átt að fara í samfélagsleg verkefni stjórnvalda. Þeirra á meðal voru verkefni sem áttu að styrkja jaðarsetta samfélagshópa, fyrrverandi hermenn og samfélög sem höfðu farið illa út úr þurrkum í landinu.

Namibíski miðillinn kveðst þá hafa það staðfest frá ACC, lögregluembætti sem rannsakar spillingu, að fjármunirnir hafi farið í að fjármagna kosningabaráttu Swapo-flokksins eftir að hafa haft viðkomu inni á reikningum lögmannsstofanna.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×