Fótbolti

Sportpakkinn: Sjokk að sjá niðurstöðu um 80 milljóna sveiflu

Sindri Sverrisson skrifar
Það kostar KSÍ drjúgan skilding að reka Laugardalsvöll.
Það kostar KSÍ drjúgan skilding að reka Laugardalsvöll. vísir/getty

Ársþing KSÍ verður í Ólafsvík um helgina. Haraldur Haraldsson, formaður Íslensks toppfótbolta og stjórnarmaður í KSÍ, segir að meginumræðan á þinginu verði um ársreikning sambandsins.

KSÍ tapaði 50 milljónum króna á síðasta ári en gert var ráð fyrir 30 milljón króna hagnaði.

„Þetta var vissulega sjokk að sjá þessar niðurstöður um 80 milljóna króna sveiflu. Menn voru hissa að sjá það en fyrir því eru einhverjar skýringar. Það sem mér finnst mest áberandi er rekstur Laugardalsvallar sem er þungur baggi á sambandinu. Ég held að félögin í landinu geti verið sammála um að við eigum ekki að vera að greiða fyrir völlinn úr sjóðum sambandsins,“ sagði Haraldur við Arnar Björnsson í Sportpakkanum á Stöð 2.

Viðtalið við Harald má sjá í heild neðst í fréttinni.

Samkvæmt ársreikningi KSÍ kostaði rekstur Laugardalsvallar rúmar 100 milljónir króna eða tæplega 13 milljónum meira en gert var ráð fyrir.

„Reykjavíkurborg verður að koma að þessu máli, það er alveg klárt. Borgin á völlinn,“ sagði Haraldur.

En ber KSÍ ekki einhver skylda sem rekstraraðili vallarins?

„Jú væntanlega liggur einhver þjónustusamningur að baki þar sem forsendur eru brostnar“.

Íslendingar mæta Rúmenum á Laugardalsvelli 26. mars í umspili um sæti í Evrópukeppninni í sumar. Fari það svo að Íslendingar komist ekki í lokakeppnina verður þetta þá ekki erfiður biti fyrir KSÍ?

„Þessi rekstraráætlun sem liggur fyrir þinginu gerir ráð fyrir tapi og inni í því er um 100 milljón króna kostnaður vegna þessa umspils. Bæði að koma vellinum í stand og að koma liðinu í gegnum þessa tvo leiki. Ef þessir leikir tapast þá blasir þessi niðurstaða við en ef við vinnum og komust alla leið erum við í frábærum málum. Það er frábært að íslenskur fótbolti sé í þessum sporum og hafi efni á því. En líkt og í fyrra er rekstur Laugardalsvallar allt of stór biti í þessu öllu saman“.

Knattspyrnusambandið hefur haldið úti mörgum landsliðum. Hefur það komið til tals að spara þar?

„Ég held að það verði ekki skoðað að skera niður hjá landsliðunum en við þurfum vissulega að huga að kostnaði. Árið 2019 er fyrsta árið í nokkurn tíma sem er venjulegt ár í rekstrinum okkar. Í ljós kemur að þar er töluverð framúrkeyrsla og við þurfum að endurskoða þá stöðu“.

Fjárhagsstaða knattspyrnuliða á landinu, hún er ekki alltof góð?

„Nei það herðir að. Ég er nú búinn að vera framkvæmdastjóri hjá mínu félagi í 10 ár og þetta hefur aldrei verið auðvelt. Það er svo sem ekkert nýtt fyrir okkur“.

Hver gæti verið skýringin. Eru félögin að eltast við of dýra leikmenn?

„Ég er á því að við erum að borga of há laun en ástandið í þjóðfélaginu er ískalt. Við finnum fyrst fyrir því þegar fyrirtæki draga saman“.

Eru fjármálareglurnar í kringum fótboltann nógu skýrar hér á landi?

„Ég tel það. Við erum með leyfiskerfi og félögin eru að skila gögnum þessa dagana.

Eru fótboltaliðin í landinu sjálfbær?

„Nei, ég held að ég geti ekki sagt það, ekki til lengdar“.

Það heyrast enn sögur að félögin séu að greiða laun eftir einhverjum krókaleiðum:

„Ekki þekki ég það. Ég held að þetta sé verulega breytt frá því sem var hérna á árum áður. Þetta er meira uppi á borðum núna og mörg félög eru með alla sína leikmenn sem launþega sem tíðkaðist ekki fyrir einhverjum árum.“, sagði Haraldur Haraldsson formaður Íslensks toppfótbolta og stjórnarmaður í KSÍ.

Klippa: Rekstur Laugardalsvallar þungur baggi á KSÍ

Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×