Sport

Bergrún, Hulda og Patrekur slógu Íslandsmet

Sindri Sverrisson skrifar
Bergrún Ósk Aðalsteinsdóttir á ferðinni í 60 metra hlaupinu í dag.
Bergrún Ósk Aðalsteinsdóttir á ferðinni í 60 metra hlaupinu í dag. Mynd/ÍF/Jón Björn

Fjögur Íslandsmet voru sett í frjálsum íþróttum innanhúss á Íslandsmóti Íþróttasambands fatlaðra í Kaplakrika í dag, á fyrri keppnisdegi mótsins.

Eyfellingurinn Hulda Sigurjónsdóttir úr Ármanni bætti fjögurra ára gamalt Íslandsmet sitt í kúluvarpi þegar hún kastaði 10,33 metra, en hún bætti metið sitt um 14 sentímetra. Hulda keppir í fötlunarflokki 20.

Bergrún Ósk Aðalsteinsdóttir sló tvö Íslandsmet, í 60 metra hlaupi og kúluvarpi, í fötlunarflokki 35-38. Bergrún hljóp á 9,45 sekúndum og bætti sitt eigið met um 3/100 úr sekúndu, en í kúluvarpinu kastaði hún 9,43 metra.

Patrekur Andrés Axelsson úr Ármanni setti nýtt Íslandsmet í 400 metra hlaupi í flokki blindra þegar hann hljóp á 1:00,83 mínútu.

Keppni heldur áfram á morgun en öll úrslit má sjá hér. Mótið fer fram samhliða Meistaramóti Íslands sem lesa má um hér.

Haukur Gunnarsson og Jón Oddur Halldórsson, sem á sínum tíma voru meðal fremstu frjálsíþróttamanna heims úr röðum fatlaðra, mættu til leiks í Hafnarfirði í dag.mynd/ÍF/Jón Björn



Fleiri fréttir

Sjá meira


×