Enski boltinn

Liverpool bakvörðurinn sér eftir að hafa hrint Messi

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Lionel Messi var skiljanlega mjög ósáttur með framkomu Andy Robertson.
Lionel Messi var skiljanlega mjög ósáttur með framkomu Andy Robertson. Getty/Jan Kruger

Lionel Messi er ekki vanur að lenda í leiðindum inn á fótboltavellinum eða kannski þar til í undanúrslitaleik Liverpool og Barcelona í Meistaradeildinni í fyrra þegar honum lenti upp á kant við Liverpool bakvörðinn Andy Robertson.

Réttara er að segja að Andy Robertson var með almenn leiðindi við besta knattspyrnumann heims.

Lionel Messi skoraði tvö mörk í 3-0 sigri í fyrri leiknum en það var ekki nóg því Liverpool komst áfram eftir ótrúlegan 4-0 sigur í seinni leiknum.

Viðskipti þeirra félaga í seinni leiknum fólust meðal annars í því að Andy Robertson hrinti Lionel Messi en skoski bakvörðurinn sér nú eftir öllu saman.


Andy Robertson var þarna í engum rétti enda sat Lionel Messi á jörðinni eftir að það hafði verið brotið á honum. Robertsson kom æðandi að og hrinti Argentínumanninum sem var skiljanlega ekki sáttur.

Robertson viðurkenndi í viðtali við Daily Mail að hann sjái eftir þessu og skammaðist sín þegar hann horfði aftur á atvikið á myndbandi.

„Þegar ég horfi aftur á hluti þá sé ég vanalega ekki eftir neinu því reynsla þín og upplifun gerir þig að því sem þú ert í dag. Ég sé samt eftir þessari stundu með Messi. Ég er ekki hrifinn af því að horfa á þetta. Ég var niðurbrotinn þegar ég sá þetta aftur,“ sagði Andy Robertson.

„Ég ber virðingu fyrir honum og Barcelona en við mættum í þennan leik í ákveðnum stellingum. Við vorum 3-0 undir og þurftum á kraftaverki að halda. Við þurftum eitthvað sérstakt og ef það var að koma veg fyrir að besti leikmaður heims næði sér á strik þá var ég klár,“ sagði Robertson.


„Ég sé samt eftir þessu. Þetta er ekki sá maður sem ég er. Þetta er ekki minn persónuleiki. Þetta kvöld gerðust bara fullt af hlutum sem þú manst ekki eftir,“ sagði Andy Robertson.

Þetta atvik gerðist snemma leiks og átti kannski þátt í því að koma Messi úr jafnvægi. Hver veit? Í það minnsta þá átti Barcelona liðið aldrei möguleika á Anfield þetta kvöld og þriggja marka forskot úr fyrri leiknum var ekki nóg.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.