Enski boltinn

Óvíst hvort Martial verði með gegn Everton

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Martial fagnar marki sínu gegn Watford.
Martial fagnar marki sínu gegn Watford. Vísir/Getty

Anthony Martial, franski sóknarmaður Manchester United, missir eflaust af heimsókn Manchester United á Goodison Park á sunnudaginn vegna meiðsla sem hann varð fyrir á æfingu í vikunni.

Martial hefur farið á kostum síðan vetrarhléi ensku úrvalsdeildarinnar lauk en hann hafði skorað í þremur leikjum í röð áður en hann meiddist. 

Skoraði hann í 2-0 sigri Man Utd á Chelsea, 3-0 sigrinum á Watford og þá skoraði hann í 1-1 jafntefli liðsins gegn Club Brugge í 32-liða úrslitum Evrópudeildarinnar. Vegna meiðslanna þá missti hann af síðari leiknum gegn Club Brugge en það kom ekki að sök þar sem Man Utd vann 5-0 og tryggði sér sæti í 16-liða úrslitum keppninnar.

Ole Gunnar Solskjær, þjálfari Man Utd, sagði á blaðamannafundi í morgun að óvíst væri hvenær Martial færi leikfær og þeir myndu ekkert vita fyrr en hann færi í skoðun. Sú skoðun átti að fara fram í dag en enn hefur ekkert heyrst frá félaginu.

Um er að ræða meiðsli á læri og í kringum hnéð samkvæmt Solskjær. Það er ljóst að Man Utd má ekki við frekari skakkaföllum en Marcus Rashford og Paul Pogba verða líklega frá út leiktíðina. Þó Odion Ighalo hafi skorað sitt fyrsta mark fyrir félagið gegn Club Brugge þá er ljóst að hann og ungstirnið Mason Greenwood geta ekki séð um markaskorun liðsins fram á sumar. 

Það er því vonandi fyrir Martial, Man Utd og stuðningsmenn félagsins að framherjinn franski nái sér sem fyrst en hann hefur skorað 15 mörk í öllum keppnum til þessa á leiktíðinni. 


Tengdar fréttirAthugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.