Umfjöllun og viðtöl: Tindastóll - Stjarnan 70-98 | Bikarmeistararnir örugglega í úrslit

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Tomsick skoraði 27 stig gegn Tindastóli.
Tomsick skoraði 27 stig gegn Tindastóli. vísir/bára

Stjarnan er komið í úrslitaleik Geysisbikars karla í körfubolta eftir öruggan sigur á Tindastóli, 70-98, í kvöld.

Ótrúleg sigurganga Stjörnumanna í Laugardalshöllinni heldur því áfram. Þeir hafa leikið sex bikarleiki í Höllinni og unnið þá alla.

Stjarnan varð bikarmeistari í fyrra og getur unnið titilinn annað árið í röð þegar liðið mætir Grindavík á laugardaginn.

Eftir jafnan fyrri hálfleik voru Stjörnumenn með mikla yfirburði í þeim seinni sem þeir unnu, 53-27.

Tindastóll byrjaði betur og komst í 9-4 eftir þriggja mínútna leik. Stólarnir skoruðu hins vegar aðeins fimm stig á síðustu sjö mínútum 1. leikhluta.

Stjörnumenn náðu smám saman yfirhöndinni og leiddu með fjórum stigum eftir 1. leikhluta, 14-18.

Eftir fimm stig í röð frá Stólunum sem breyttu stöðunni í 21-22 kom kröftugt 11-3 áhlaup hjá Stjörnumönnum sem komust níu stigum yfir. Nikolas Tomsick var óstöðvandi á þessum tíma og allt fór ofan í hjá honum.

Tindastóll svaraði með 9-0 kafla þar sem Sinisa Bilic fór mikinn. Eftir rólega byrjun fóru hann og Jaka Brodnik í gang og héldu sóknarleik Tindastóls uppi.

Brodnik kom Stólunum í 43-42 undir lok fyrri hálfleiks. Stjörnumenn tóku leikhlé og að því loknu keyrði Ægir Þór Steinarsson upp að körfu, skoraði sín fyrstu stig, fiskaði villu og setti vítið ofan í. Stjarnan leiddi því í hálfleik, 43-45.

Stjörnumenn byrjuðu seinni hálfleikinn af miklum krafti og skoruðu að vild. Þeir komust ellefu stigum yfir, 48-59, eftir frábæra þriggja stiga körfu Tomsicks. Engu breytti þótt Urald King væri utan vallar vegna villuvandræða á þessum kafla. Hann fékk svo sína fimmtu villu snemma í 4. leikhluta.

Stólarnir áttu fá svör við góðum leik Stjörnumanna í seinni hálfleik. Stjarnan var með góða forystu og Tindastóli gekk illa að nálgast Garðbæinga.

Eftir góðan 2. leikhluta gerðu Brodnik og Bilic ekkert í þeim þriðja þar sem hvorugur þeirra skoraði stig. Staðan að 3. leikhluta loknum var 60-73, Stjörnunni í vil.

Stjörnumenn skoruðu fyrstu sjö stig 4. leikhluta og þá var björninn svo gott sem unninn. Áhlaupið sem Stólarnir þurftu að koma með kom aldrei.

Hins vegar bætti Stjarnan í og munurinn jókst með hverri mínútunni. Þegar yfir lauk munaði 28 stigum á liðunum, 70-98.

Af hverju vann Stjarnan?

Eftir rólega byrjun voru Stjörnumenn alltaf með frumkvæðið. Þeir spiluðu lengst af hörkuvörn og unnu frákastabaráttuna sannfærandi, 34-50. Í sókninni var Tomsick magnaður og setti niður ótrúleg skot.

Í seinni hálfleik var svo aldrei spurning hvoru megin sigurinn myndi enda. Stjörnumenn voru miklu betri á öllum sviðum gegn úrræðalausum Stólum.

Hverjir stóðu upp úr?

Tomsick héldu engin bönd og það var sama hvar hann skaut, allt fór ofan í. Hann skoraði 27 stig og var stigahæstur á vellinum Kyle Johnson var rosalega drjúgur og með frábæra skotnýtingu. Hann skoraði 22 stig úr aðeins 13 skotum. Ægir skoraði bara fimm stig en stjórnaði leik Stjörnunnar frábærlega og gaf 15 stoðsendingar.

Tómas Þórður Hilmarsson og Hlynur Bæringsson voru svo óhemju traustir og réðum ríkjum undir körfunni.

Hvað gekk illa?

Eftir ágætan fyrri hálfleik voru Stólarnir ömurlegir í þeim seinni. Brodnik og Bilic voru gagnlausir eftir góðan 2. leikhluta og bakverðir Tindastóls gerðu lítið.

Sóknarleikur Stólanna var ágætur á köflum í fyrri hálfleik en í þeim seinni skoruðu þeir aðeins 27 stig.

King var í villuvandræðum og spilaði aðeins tæpar 15 mínútur. Það kom þó ekki að sök en hann vill væntanlega bæta upp fyrir leikinn í kvöld í úrslitaleiknum.

Hvað gerist næst?

Á laugardaginn mætir Stjarnan Grindavík í bikarúrslitaleiknum. Stjörnumenn verða að teljast líklegir til að vinna bikarinn annað árið í röð gegn Kanalausum Grindvíkingum.

Hlynur átti góðan leik í kvöld. Hann skoraði 13 stig og tók ellefu fráköst.vísir/bára

Hlynur: Bjóst við jöfnum leik

„Ég átti ekki von á þessu. Ég bjóst við jöfnum leik ef ég á að vera hreinskilinn,“ sagði Hlynur Bæringsson, fyrirliði Stjörnunnar, eftir sigurinn örugga á Tindastóli í kvöld.

Stjarnan var tveimur stigum yfir í hálfleik, 43-45, en í seinni hálfleik voru yfirburðir Garðbæinga miklir. Þeir unnu seinni hálfleikinn, 53-27.

„Við stöðvuðum sóknarfráköstin þeirra. Þeir náðu mörgum slíkum í fyrri hálfleik og fengu opin skot upp úr vissum stöðum sem þeir nýttu ágætlega. Í seinni hálfleik fengum við líka hraðaupphlaupsstöður þar sem Ægir sprengdi leikinn upp,“ sagði Hlynur.

„Við spiluðum ekkert frábærlega í fyrri hálfleik, alls ekki. Tindastóll náði ekki fram sínu besta, það verður að viðurkennast.“

Vörn Stjörnunnar var mjög öflug í seinni hálfleik þar sem Tindastóll skoraði aðeins 27 stig.

„Það komu augnablik þar sem þeir klikkuðu á opnum skotum en heilt yfir náðum við að þvinga þá í erfið skot,“ sagði Hlynur.

Stjarnan mætir Grindavík í bikarúrslitaleiknum á laugardaginn. Með sigri verða Stjörnumenn bikarmeistarar annað árið í röð og í fimmta sinn alls.

„Það er ógeðslega gaman að spila í Höllinni og ég er búinn a vinna nokkrum sinnum hérna. Ég geri allt sem í mínu valdi stendur til að vinna aftur,“ sagði Hlynur að lokum.

Baldur sagði ekkert hafa gengið upp hjá sínum mönnum í seinni hálfleik.vísir/bára

Baldur: Þetta er sárt

Baldur Þór Ragnarsson, þjálfari Tindastóls, var vonsvikinn eftir tapið fyrir Stjörnunni.

„Þetta er sárt og leiðinlegt að geta ekki fylgt eftir fyrri hálfleik,“ sagði Baldur. Hans menn voru tveimur stigum undir í hálfleik, 43-45.

„Ég var ekki ánægður í hálfleik. Við létum þá skora alltof auðveldar körfur í trekk í trekk eftir einfaldar fléttur. Við hefðum getað gert betur í fyrri hálfleik en sóknin var betri.“

Í seinni hálfleik átti Tindastóll engin svör við góðum leik Stjörnunnar.

„Við gerðum illa á öllum vígstöðvum í seinni hálfleik. Þetta var ekki gott og það gengur ekki á móti svona sterku liði,“ sagði Baldur.

Sóknarleikur Stólanna var slakur í seinni hálfleik og varnarleikurinn sömuleiðis.

„Við hefðum getað haldið mönnunum betur fyrir framan okkur. Við fengum 98 stig á okkur og hefðum getað gert allt betur,“ sagði Baldur.

Stólarnir virtust aldrei líklegir til að koma til baka í seinni hálfleik þar sem Stjörnumenn voru alltaf með frumkvæðið.

„Maður heldur alltaf í vonina þótt munurinn sé mikill. Manni finnst maður alltaf geta komið til baka en það gerðist ekki í þetta skiptið,“ sagði Baldur að endingu.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira