Sport

Wodapalooza CrossFit mótinu stillt upp sem einvígi á milli Söru og Tiu-Clair Toomey

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Sara Sigmundsdóttir fær alvöru samkeppni á Wodapalooza CrossFit mótinu í Miami.
Sara Sigmundsdóttir fær alvöru samkeppni á Wodapalooza CrossFit mótinu í Miami. Mynd/Instagram/wodapalooza

Sara Sigmundsdóttir var á mikilli sigurgöngu síðustu mánuði ársins 2019 en nú er komið að fyrstu CrossFit keppni hennar á árinu 2020.

Sara Sigmundsdóttir endaði árið 2019 með því að vinna tvö CrossFit mót, í Dublin og í Dúbaí, og gera síðan betur en allar í „The Open“ sem er fyrsta stig undankeppninnar fyrir heimsleikana í haust.

Það reynir hins vegar fyrir alvöru á þessa sigurgöngu Söru á fyrsta CrossFit móti hennar á nýju ári. Hún er nú komin til Miami á Flórída til að taka þátt í Wodapalooza CrossFit mótinu sem hefst á fimmtudaginn.

Þar bíða hennar margar öflugar CrossFit konur og þar á meðal sjálfur heimsmeistarinn Tia-Clair Toomey.

Hin ástralska Tia-Clair Toomey endaði tveggja ára sigurgöngu Katrínar Tönju Davíðsdóttur árið 2017 og hefur nú unnið heimsleikana þrjú ár í röð. Nú bíða margir spenntir eftir því hvort Sara Sigmundsdóttir hafi burði til að enda sigursöngu Ástralans.

Það kemur því kannski engum á óvart að Wodapalooza CrossFit mótinu í ár sé stillt upp sem einvígi á milli Söru Sigmundsdóttur og Tiu-Clair Toomey.

Báðar hafa þær ekki tapað móti í langan tíma og auk sigra sinn á síðustu þremur heimsleikum þá hefur Tia-Clair Toomey einnig unnið eitt CrossFit mót eftir heimsleikanna.

Tia-Clair Toomey endaði reyndar „bara“ í fjórða sæti i „The Open“ en þar liggja ekki hennar styrkleikar heldur í mótunum sjálfum.

Auk Söru voru þær Anníe Mist Þórisdóttir og hin norska Kristin Holte fyrir ofan Tiu-Clair Toomey í opna hluta undankeppni heimsleikanna.  

Þetta er annað árið í röð þar sem Tia-Clair Toomey og Sara Sigmundsdóttir keppa á Wodapalooza mótinu en í fyrra vann Tia mótið en Sara varð í þriðja sæti.

Nú hefur Sara sýnt það í síðustu mótum að hún er búin að skipta í annan og betri gír. Það verður því fróðlegt að sjá hvernig hún kemur núna út í samanburði við hina gríðarlega öflugu Toomey.

Katrín Tanja Davíðsdóttir vann síðan Wodapalooza mótið árið 2018 en hún er ekki með í ár og keppti heldur ekki á mótinu í fyrra. Katrín Tanja er þó stödd á svæðinu en næsta mót hennar verður væntanlega í Kaliforníu í marsmánuði.

Sara er þó ekki eini íslenski keppandinn á mótinu því Þuríður Erla Helgadóttir er einnig með í ár. Þuríður Erla varð í níunda sæti á heimsleikunum á síðasta ári og þá á undan bæði Söru Sigmundsdóttur og Anníe Mist Þórisdóttur.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.