Fótbolti

Gerrard fékk son Gheorghe Hagi á láni

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Ianis Hagi er í tíunni í rúmenska landsliðinu eins og pabbi sinn.
Ianis Hagi er í tíunni í rúmenska landsliðinu eins og pabbi sinn. Samsett/Getty

Steven Gerrard hefur styrkt lið Rangers fyrir lokabaráttuna um skoska meistaratitilinn og sá hinn sami er vel ættaður.

Ianis Hagi, 21 árs gamall sonur rúmensku goðsagnarinnar Gheorghe Hagi, kemur til Rangers á láni frá belgíska félaginu Genk.

Ianis Hagi er miðjumaður sem var á sínu fyrsta tímabili í Belgíu. Hans besta staða er framarlega á miðjunni.

Ianis Hagi var með 4 mörk og 3 stoðsendingar í 14 leikjum með Genk í belgísku deildinni á þessari leiktíð.



Ianis Hagi fæddist í Tyrklandi árið 1998 en Gheorghe faðir hans var þá að spila með Galatasaray í tyrknesku deildinni þar sem hann spilaði síðustu fimm ár ferilsins.

Gheorghe Hagi er eigandi og knattspyrnustjóri Viitorul Constanta og seldi son sinn til Genk fyrir fjórar milljónir punda síðasta sumar.

Gheorghe Hagi sjálfur lék bæði með Real Madrid (1990-92) og Barcelona (1994-96) á sínum ferli. Hann skoraði 35 mörk í 125 landsleikjum fyrir Rúmeníu þar af þrjú markanna á HM í Bandaríkjunum 1994 og önnur þrjú í tveimur leikjum á móti Íslandi í undankeppni HM 1998. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×