Handbolti

Guðmundur: Hlakka til að takast á við Norðmenn

Henry Birgir Gunnarsson í Malmö skrifar
Guðmundur í viðtali í gær.
Guðmundur í viðtali í gær.

Guðmundur Guðmundsson landsliðsþjálfari var fljótur að ná sér niður á jörðina eftir sigurinn á Portúgal þó svo hann hafi vissulega létt lundina.

Í kvöld bíður liðsins risaverkefni er strákarnir spila við Noreg sem er með eitt besta landslið heims og margir spá Evrópumeistaratitli.

„Ég byrjaði á fundinum strax í morgun að tala um hvað það hefði verið sem skilaði okkur sigri gegn Portúgal. Þá var ég ekki endilega að tala um leikaðferðirnar heldur hvernig við komum innstilltir í leikinn,“ sagði landsliðsþjálfarinn á blaðamannafundi HSÍ í gær.

„Þetta er það sem við þurfum að halda í. Það er svo mikilvægt að núllstilla þig á vissan hátt en halda samt í það sem var frábært í síðasta leik. Út á það gengur þetta mjög mikið.“

Guðmundur og félagar hans, Gunnar Magnússon og Einar Andri Einarsson, eru lúsiðnir sem fyrr og voru auðvitað strax farnir í að skoða Norðmenn.

„Þetta lið var í úrslitum á tveimur síðustu heimsmeistaramótum og hefur verið mjög framarlega í heiminum undanfarin sex ár. Þeir eru að mínu mati eitt af þremur bestu landsliðum heims. Þetta er hörkuverkefni en ég hlakka til að takast á við það,“ segir Guðmundur ákveðinn og hvergi banginn.

„Vonandi gengur okkar leikáætlun upp. Við erum með ákveðnar áherslur. Þróunin hjá okkur er að við erum með nákvæm leikplön á móti mismunandi andstæðingum. Við höfum legið yfir þessu og ég er með frábæra menn í Gunna og Einari. Tomas sér svo um markmennina. Þetta er þrotlaus vinna.“

Ekkert lið er ósigrandi segir Guðmundur og hann ætlar að leggja sitt af mörkum í von um að Noregur tapi loksins leik á EM í kvöld.

„Við förum óhræddir inn í leikinn þó svo við séum ekki sigurstranglegri. Við vorum það heldur ekki gegn Dönum en við þurfum að eiga algjöran toppleik til þess að vinna þá.“

Klippa: Guðmundur um Noregsleikinn


Tengdar fréttirAthugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.