Handbolti

Guðjón Valur: Metin kitla egóið en þetta er liðsíþrótt

Henry Birgir Gunnarsson í Malmö skrifar

Landsliðsfyrirliðinn Guðjón Valur Sigurðsson skrifar söguna í hverjum leik á EM enda markahæsti leikmaður mótsins frá upphafi og einnig markahæsti handboltamaður sögunnar.

Guðjón er orðinn fertugur, veit af þessum metum en hugsar ekki mikið um þau en grunar að þau muni ylja síðar meir.

„Þetta er fallegt og gaman en þegar ég spila skiptir þetta mig engu máli. Kannski verður þetta merkilegra þegar ég er hættur. Það kitlar egóið að heyra þetta en þetta er liðsíþrótt og ég hef sagt það áður að ég hefði aldrei náð þessum árangri án liðsfélaganna,“ segir landsliðsfyrirliðinn auðmjúkur að venju.

„Ég nýt þess að fá að vera hérna. Kannski verður maður gamall og meyr núna en ég nýt þess að vera með ungu strákunum og líka gömlum og góðum félögum. Ég er þakklátur að fá að vera hér og ætla að njóta þess eins lengi og hægt er.“

Miðað við frammistöðu Guðjóns á mótinu virðist ekkert styttast í að hann hætti. Hann er enn á meðal þeirra bestu.

„Við skulum láta þjálfarann velja það og ég er ekki kominn með vinnu á næsta tímabili. Það er bara framtíðarmúsík.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×