Körfubolti

Finnur og lærisveinar hans máttu þola stórt tap

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Finnur Freyr hefur starfað fyrir íslenska landsliðið undanfarin ár.
Finnur Freyr hefur starfað fyrir íslenska landsliðið undanfarin ár. Vísir/Bára

Finnur Freyr Stefánsson og lærisveinar hans í Horsens í danska körfuboltanum máttu þola stórt tap gegn Bakken Bears í kvöld. Lokatölur 103-70.

Finnur Freyr tók við danska úrvalsdeildarliðinu síðasta sumar og hefur náð ágætis árangri. Til að mynda er liðið komið í úrslit danska bikarsins. Hann gerði KR að fimmföldum Íslandsmeisturum áður en hann tók sér smá frí frá meistaraflokksþjálfun og þjálfaði á meðan yngri flokka Vals. Síðasta sumar bauðst honum svo að taka við Horsens í dönsku úrvalsdeildinni.

Í kvöld mættu þeir hins vegar ofjörlum sínum en Bakken Bears tróna á toppi deildarinnar á meðan Horsens er í 2. sæti. Leikurinn náði aldrei neinu flugi en arfaslakur fyrri halfleikur Horsens gerði í raun út um möguleika þeirra að fá eitthvað út úr leiknum. Skoruðu þeir aðeins 28 stig í öllum fyrri hálfleiknum, staðan þá 56-28.

Sóknarleikur Horsens skánaði aðeins í síðari hálfleik en varnarleikurinn var ekki upp á marga fiska. Á endanum tapaðist leikurinn með 33 stiggja mun, lokatölur 103-70.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×