Enski boltinn

Liverpool fjórða liðið til að leika 40 leiki án þess að tapa

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Klopp má vera ánægður með árangur Liverpool undanfarið.
Klopp má vera ánægður með árangur Liverpool undanfarið. Vísir/Getty

Sigur Liverpool á Wolves var þeirra 22 sigurleikur á leiktíðinni í ensku úrvalsdeildinni, í aðeins 23 leikjum. Liðið er með 16 stiga forystu á Manchester City ásamt því að eiga leik til góða. Sigurinn þýðir einnig það að Liverpool hefur nú leikið 40 leiki í röð án þess að bíða ósigur. Eru þeir aðeins fjórða liðið til að ná þeim árangri í efstu deild á Englandi.

Af þessum 40 leikjum þá hefur Liverpool unnið 35 og gert aðeins fimm jafntefli.

Þá var þetta 14. sigurleikur liðsins í röð en 1-1 jafntefli liðsins á Old Trafford gegn Manchester United er eini deildarleikurinn sem þeim hefur mistekist að sækja sigur í til þessa á leiktíðinni.

Metið yfir flesta leiki án þess að bíða ósigur í efstu deild á Englandi er sem stendur 49 leikir en hið Ósigrandi lið Arsenal setti það met á árunum 2003 og 2004. Þeirra met féll á Old Trafford er liðið beið 2-0 ósigur gegn Manchester United. 

Chelsea undir stjórn José Mourinho tók við keflinu en liðið, með Eið Smára Guðjohnsen innanborðs, lék 40 leiki án ósigurs á árunum 2004-2005. 

Þar áður þarf að fara aftur til áranna 1977 og 1978 en þá lék Nottingham Forest, undir stjórn Brian Clough, 42 leiki án þess að bíða ósigurs.

Hvort Liverpool takist að slá met Arsenal verður að koma í ljós en sem stendur er ekkert sem virðist geta stöðvað Jürgen Klopp og lærisveina hans.


Tengdar fréttirAthugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.