Körfubolti

Ótrúleg endurkoma Horsens undir stjórn Finns

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Finnur Freyr gerði KR að fimmföldum Íslandsmeisturum á sínum tíma.
Finnur Freyr gerði KR að fimmföldum Íslandsmeisturum á sínum tíma. Vísir/Bára

Lærisveinar Finns Freys Stefánssonar í Horsens unnu hreint út sagt ótrúlegan 82-76 sigur á Svendborg Rabbits á útivelli í dönsku úrvalsdeildinni í körfubolta fyrr í dag. Svendborg Rabbits voru á einum tímapunkti 31 stigi yfir í leik dagsins en Horsens tókst einhvern veginn að vinna leikinn með sex stiga mun.

Sóknarleikur Horsens var vægast sagt skelfilegur framan af leik en liðið skoraði ekki nema 26 stig í fyrri hálfleik, þar af aðeins átta í 2. leikhluta. Staðan í hálfleik var 54-26 Rabbits í vil.

Í 3. leikhluta settu Horsens hins vegar í lás en heimamenn skoruðu aðeins fimm stig á þeim kafla leiksins á meðan gestirnir undir stjórn Finns söxuðu á forskotið. Þann leikhluta unnu Horsens með 22 stiga mun og héldu svo áhlaupi sínu áfram í síðasta fjórðung leiksins.

Fór það svo að þeir unnu á endanum magnaðan sex stiga sigur, lokatölur 82-76 Horsens í vil. Horsens á svakalegri siglingu þessa dagana en liðið hefur unnið átta af síðustu níu leikjum sínum og er komið upp í toppsæti A-riðils. Þá er liðið einnig komið í úrslit danska bikarsins.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.