Körfubolti

Kobe Bryant lést í þyrluslysi

Atli Ísleifsson og Sylvía Hall skrifa
Kobe Bryant
Kobe Bryant Getty

Bandaríski körfuboltamaðurinn Kobe Bryant er látinn. Fjölmiðlar vestanhafs segja hann hafa látist í þyrluslysi í Calabasas í Kaliforníu í morgun.

Þetta kemur fram í frétt TMZ og Daily Mail. Á vef TMZ segir að fjórir aðrir hafi verið um borð í einkaþyrlu körfuboltamannsins en samkvæmt heimildum fjölmiðilsins var eiginkona hans, Vanessa Bryant, ekki á meðal þeirra sem voru um borð.

Þá hefur andlátið verið staðfest af heimildarmanni ESPN sem og CNN.

Eldur logaði í þyrlunni þegar viðbragðsaðilar komu á vettvang. Enginn um borð lifði slysið af. 

Í frétt LA Times kemur fram að slysið hafi orðið skömmu fyrir klukkan tíu í morgun að staðartíma. Mikil þoka hafi verið á svæðinu og eldurinn hafi gert viðbragðsaðilum erfitt fyrir.

Kobe Bryant spilaði allan sinn feril hjá LA Lakers.Getty

Bryant var 41 árs gamall og skilur eftir sig eiginkonu og fjórar dætur, Gianna, Natalia, Bianca og hina nýfæddu Capri sem er sjö mánaða gömul.

Hann spilaði allan sinn feril hjá LA Lakers og vann fimm NBA-titla á ferlinum. Hann er sagður vera einn besti körfuboltamaður allra tíma og var meðal annars fyrsti bakvörðurinn til þess að spila tuttugu tímabil í NBA-deildinni.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.