Enski boltinn

Segir Klopp eiga að stýra Liverpool gegn Shrewsbury: „Myndir af honum með bjór á Ibiza verða á öllum forsíðum“

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Klopp verður fjarri góðu gamni þegar Liverpool tekur á móti Shrewsbury Town í byrjun næsta mánaðar.
Klopp verður fjarri góðu gamni þegar Liverpool tekur á móti Shrewsbury Town í byrjun næsta mánaðar. vísir/getty

Jamie Carragher segir að Jürgen Klopp ætti að stýra Liverpool í endurtekna leiknum gegn Shrewsbury Town í 4. umferð ensku bikarkeppninnar í næsta mánuði.

Liverpool missti niður tveggja marka forystu gegn Shrewsbury á New Meadow í gær. Leikar fóru 2-2 og liðin þurfa því að mætast aftur á Anfield.

Endurtekni leikurinn verður fjórða eða fimmta febrúar, eða á meðan vetrarfríi í ensku úrvalsdeildinni stendur. Eftir leikinn í gær sagði Klopp að enginn úr aðalliðinu myndi spila endurtekna leikinn og hann myndi ekki einu sinni stýra Liverpool í leiknum.

Neil Critchley verður á hliðarlínunni eins og í deildabikarleiknum fræga gegn Aston Villa í síðasta mánuði. Þar stillti Liverpool upp mjög ungu liði enda var aðalliðið að spila í undanúrslitum á HM félagsliða daginn eftir.

Carragher styður þá ákvörðun Klopps að hvíla leikmenn aðalliðsins í endurtekna leiknum gegn Shrewsbury. Það sé ekki hægt að setja leiki á dagskrá á meðan vetrarfríi stendur.

Carragher segir hins vegar að Klopp ætti að stýra Liverpool í leiknum. Ungu leikmennirnir yrðu himinlifandi og myndir af Þjóðverjanum með bjór í hönd á Ibiza myndu rata á allar forsíður.


Þetta er í fyrsta sinn sem vetrarfrí verður í ensku úrvalsdeildinni. Liverpool verður í fríi 2.-16. febrúar.

Fjögur lið úr ensku úrvalsdeildinni þurfa að leika aftur í 4. umferð bikarkeppninnar eftir að hafa gert jafntefli um helgina; Liverpool, Newcastle United, Tottenham og Southampton.


Tengdar fréttirAthugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.