Enski boltinn

Jürgen Klopp: Enginn úr aðalliði Liverpool mun spila endurtekna leikinn á móti Shrewsbury

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Jürgen Klopp í leiknum á móti Shrewsbury Town í gær. Þrátt fyrir jafntefli þá gæti þetta orðið síðasti bikarleikur Klopp á þessu tímabili.
Jürgen Klopp í leiknum á móti Shrewsbury Town í gær. Þrátt fyrir jafntefli þá gæti þetta orðið síðasti bikarleikur Klopp á þessu tímabili. Getty/James Baylis

Eftir að Liverpool missti niður 2-0 forystu í bikarleiknum á móti Shrewsbury Town í gær og ljóst að það yrði annar leikur varð knattspyrnustjórinn Jürgen Klopp að taka erfiða ákvörðun - trufla vetrarfrí leikmanna sinna eða mæta í endurtekna leikinn með varalið.

Jürgen Klopp var fljótur að láta fjölmiðla vita um ákvörðun sína. Eftir leikinn gaf þýski stjórinn það út að enginn úr aðalliði Liverpoool muni spila endurtekna leikinn á móti Shrewsbury Town.


Klopp gerði níu breytingar á byrjunarliði sínu fyrir leikinn á móti Shrewsbury Town í gær en þar voru samt öflugir leikmenn inn á milli og er þrjár stjörnur komu inn á sem varamenn.

Það verður ekkert veikara lið í seinni leiknum heldur algjört varalið eins og í deildabikarleiknum fræga á móti Aston Villa fyrr í vetur þegar Liverpool var að keppa í heimsmeistarakeppni félagsliða á sama tíma.

„Ég sagði við strákana fyrir tveimur vikur að við munum fara í vetrarfrí sem þýðir það að við verðum ekki þarna. Það er ekki hægt að líta svo á að okkur sé alveg sama um þetta. Ég veit líka að þetta er ekki vinsæl ákvörðun en svona sé ég þetta,“ sagði Jürgen Klopp. Hann sjálfur mun heldur ekki vera á staðnum.


Liverpool er eitt af fjórum úrvalsdeildarliðum sem þurfa að spila aftur eftir jafntefli um helgina en hin eru Newcastle, Tottenham og Southampton. Vetrarfrí Liverpool er frá 2. til 16. febrúar en endurtekni leikurinn við Shrewsbury Town á að fara fram 4. eða 5. febrúar.

Þetta er í fyrsta sinn þar sem verður vetrarfrí í ensku úrvalsdeildinni en enska bikarkeppnin ákvað samt að setja endurtekna leiki á í því. Það var Jürgen Klopp mjög ósáttur með frá byrjun og hefur nú sýnt það í verki.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.