Handbolti

Guð­mundur fékk gæsa­húð yfir varnar­leiknum

Anton Ingi Leifsson skrifar

Guðmundur Guðmundsson, landsliðsþjálfari, var himinlifandi með sigur íslenska landsliðsins gegn Rússum í kvöld í öðrum leik liðsins á EM í Malmö.

„Ég hugsa að það hafi verið svona 50 sekúndur. Maður veit aldrei,“ sagði Guðmundur í leikslok er hann var aðspurður hvenær hann hefði náð púlsinum niður á hliðarlínunni.

Ísland var með góð tök á leiknum en Rússarnir náðu áhlaupi í fyrri hálfleik. Guðmundur hafði þessar skýringar á því áhlaupi.

„Við vorum að skjóta of snemma og fara of nálægt vörninni. Eitt og annað sem olli því að þetta hikstaði aðeins en í stuttan tíma. Svo fannst mér við komnir með þetta. Í síðari var þetta aldrei spurning og sigldum þessu heim á sannfærandi hátt.“

Varnarleikurinn var hreint út sagt stórkostlegur. Rússarnir áttu nánast engin svör og Guðmundur var stoltur af varnarleiknum.

„Ég er rosalega ánægður að sjá vörnina. Hún virkaði fullkomnlega. Ég fékk gæsahúð nokkrum sinnum. Þetta var stórkostlegur varnarleiku. Það getur verið gaman að fylgjast með varnarleik, ekki bara sóknarleg. Þetta er gífurleg vinna og það eru frábærir leikmenn að fylgja þessu á eftir. Þetta var skemmtilegt.“

Ísland hefur sýnt andlegan styrk í fyrstu tveimur leikjunum og það gleður þjálfarann eðlilega.

„Alveg rosalegur styrkur. Þetta er hættulegur leikur. Það er auðvelt að koma inn glaður og lenda í vandræðum. Ef þú ert ekki tilbúinn frá byrjun geturu lent í vandræðum gegn svona liði. Skilaboðin í hálfleik voru að byrja á fullu og það má ekki gefa neitt eftir. Þú mátt ekki gefa þeim litla fingur því þá taka þeir alla höndina.“

Guðmundur gat leyft sér að rúlla vel á liðinu og hann segir að það hafi verið mikilvægt en allir leikmenn Íslands spiluðu í dag.

„Ég er mjög sáttur með það. Við byrjum að skipta út hornunum og náðum að hvíla Lexa og Aron sem var jákvætt. Við rúlluðum á öllu liðinu eins og við gátum. Það var frábært,“ sagði brosandi Guðmundur.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×