Umfjöllun og viðtöl: KR - Fjölnir 96-83 | Öruggt hjá KR á móti botnliðinu

Árni Jóhannsson skrifar
Craion var stigahæstur KR-inga.
Craion var stigahæstur KR-inga. vísir/bára

Fyrir leik KR og Fjölnis í 14. umferð Dominosdeildar karla í körfuknattleik, var búist við sigri KR og jafnvel að sá sigur yrði auðveldur. Það virtist ætla að rætast sé mið tekið af fyrsta leikhluta.

KR byrjaði af miklum krafti en þeir voru með fulla leikskýrslu í fyrsta sinn í einhvern tíma og það hefur gefið mönnum aukakraft enda náðu þeir 20 stig forskoti um miðbik leikhlutans sem endaði síðar í stöðunni 35-17. KR hitti gífurlega vel úr sínum skotum á meðan einungis Victo Moses var með lífsmarki hjá Fjölni. Kappinn skoraði 13 fyrstu stig sinna manna og það voru rúmlega tvær mínútur eftir af fyrsta leikhluta þegar aðrir leikmenn fóru að láta til sín taka. 

Heimamenn héldu áfram undirtökum framan af öðrum leikhluta en í lok hans slökuðu þeir aðeins á klónni og FJölnismenn gengu á lagið. Gestirnir úr Grafarvogi unnu annan leikhluta með sex stigum og gengu liðin til búningsklefa í stöðunni 56-44 þar sem undirrituðum fannst að heimamenn ættu að vera með meira forskot.

Fjölnismenn komu til leiks í síðari hálfleik eins og ljón sem höfðu fengið þefinn af bráð en heimamenn voru allt annað en sannfærandi og þegar um tvær mínútur voru liðnar af hálfleiknum tók KR leikhlé en gestirnir höfðu skorað sjö fyrstu stigin. Þeir náðu muninum minnst niður í þrjú stig en þá rönkuðu heimamenn við sér og var munurinn fljótur að breytast úr þremur stigum í 13 þegar þriðja leikhluta var lokið.

Fjórði leikhluti var í raun og veru formsatriði þó að gestirnir hafi hótað endurkomu en þegar yfir lauk höfðu heimamenn 13 stiga sigur og voru vel að honum komnir.

Af hverju vann KR?
Fyrir utan að vera með sterkari hóp og reynslumeiri þá skópu KR-ingar sigurinn með því að byggja upp gott forskot í fyrsta leikhluta. Hann vannst með 18 stigum og náðu Íslandsmeistararnir að gera nóg til að klára verkefnið og sigla sigrinum heim.

Hverjir voru bestir?
Michael Craion fór fyrir sínum mönnum og skoraði 25 stig og var með 34 framlagspunkta í heild. Hann fékk fína aðstoð frá félögum sínum en átta leikmenn KR komust á blað og þar af skoruðu fimm yfir 10 stig í leiknum.

Hjá Fjölni var það Victor Moses sem leiddi liðið í stigaskori en hann endaði með 35 stig en hann þurfti að taka frumkvæðið í þessum leik þar sem liðsfélagar hans voru ekki með á nótunum á löngum köflum.

Tölfræði sem vakti athygli?
Ásamt því að vera með betra lið þá sýndu KR-ingar meiri baráttu á löngum köflum en Fjölnismenn. Þeir hirtu 14 sóknarfráköst og fengu úr þeim 14 stig á mót tveimur stigum sem komu út úr sóknarfráköstum gestanna.

Hvað gerist næst?
KR heldur áfram að koma liði sínu í stand og fara þeir í heimsókn til Þorlákshafnar og etja þar kappi við Þór. Það munar fjórum stigum á liðunum þegar þetta er skrifað og því er leikurinn mikilvægur í baráttunni um stöður í úrslitakeppni. 

Fjölnir er enn í leit að öðrum sigri sínum en Haukar mæta í Dalhús eftir viku. Haukum hefur gengið bölvanlega á útivelli í vetur og í þessum leik er tækifæri fyrir Fjölni ða nýta sér það og ná í sigur.

Ingi segist ekki viss hvort hann bæti við leikmannahóp KR. vísir/vilhelm

Ingi Þór: Ég er ánægður með að vera með alla leikmenn á skýrslu í dag
„Ég er rosalega ánægður með byrjunina á þessum leik þar sem við svörum frammistöðunni í síðasta leik. Við fengum framlag úr mörgum áttum og voru Brynjar og fleiri leikmenn að byrja mjög vel. Það voru margir sem komu inn en það er langt í land en við eigum að vera lið sem getur spilað í 40 mínútur“, sagði ánægður Ingi Þór Steinþórsson eftir sigur hans manna á Fjölni fyrr í kvöld.

Ingi var spurður hvort það væri eitthvað sérstakt sem hann gæti tekið út úr leiknum í kvöld.

„Ég er ánægður með að vera með alla leikmenn á skýrslu í dag þó þeir séu ekki allir heilir en við erum að púsla þessu saman og það skiptir máli að við séum sem mest saman og að við séum að gera þetta í sameiningu. Mér fannst það vera í dag og það var eining innan liðsins, boltinn var að flæða vel í dag og við leystum sóknarleikinn mjög vel í dag. Ég var þó óánægður með hvernig við slökuðum á þegar við náðum þægilegu forskoti í fyrri hálfleik og hvað þá að hleypa þeim niður í einhver fjögur stig í þriðja leikhluta. Við sýndum þó gæðin okkar í því að klára leikinn“.

Eins og Ingi kom inn á þá hefur lið hans átt við meiðsli að stríða og þess vegna var hann spurður hvort það væru fleiri leikmenn á leiðinni inn.

„Ertu þá að meina stöngin inn eða sláin inn?“ sagði Ingi og brosti við áður en hann hélt áfram: „Eins og staðan er núna þá er þetta leikmannahópurinn og ekkert er á leiðinni inn. Við höfum þó til 31. janúar og ef þú hefðir talað við mig fyrir 10 dögum þá hefði ég sagt já en nú eru menn að koma til baka og við verðum að sjá í hvaða standi menn eru og svo taka ákvörðun sem klúbbur og lið. Þetta kemur í ljós“.

Jón Arnór Stefánsson kom við sögu í kvöld en þó ekki lengi og var Ingi ánægður með það og hefði viljað nota hann meira.

„Hann er að koma til baka en þessi ökklameiðsli sem hann hlaut fyrr í vetur voru bara mikið alvarlegri en við fyrst var óttast. Hann þarf að fara hægt og rólega af stað. Mig langaði mikið að setja hann inn á í seinni hálfleik en ég átti einu sinni Trabant og þá gekk ég í klúbbinn skynsemin ræður og hún fékk að ráða í dag“.

Falur var ekki sáttur með hvernig Fjölnismenn byrjuðu leikinn. vísir/bára

Falur: Eins og svo oft áður náum við ansi langt en náum ekki yfir hjallinn
Það er svo sem ekki mikið sem hægt er að segja meira um gengi Fjölnis þessa dagana en þjálfari liðsins var spurður að því hvort það væri ekki allt of dýrt að hleypa andstæðingunum 20 stigum yfir snemma leiks.

„KR átti svipaðan fyrsta leikhluta og við áttum á móti Stjörnunni fyrir áramót. Þeir hittu held ég úr sex af átta þriggja stiga skotum og hittu nánast úr öllu. Við vorum undir 19 stigum en unnum alla leikhluta eftir það. Það er það sem ég tek jákvætt út úr þessum leik. Þeir voru í basli með okkur á löngum köflum. Eins og svo oft áður náum við ansi langt en náum ekki yfir hjallinn“.

Falur var þá hreinlega spurður hvort það væri hægt að útskýra afhverju Fjölnismenn eru oft inni í leikjum en ná ekki að klífa fjallið til fulls og klára leikina.

„Ég vildi að ég væri með svarið fyrir þig. Þá væri þetta ekki svona. Það eru náttúrlega margir samspilandi þættir og körfubolti er leikur spretta og við áttum nokkra spretti en héldum síðan bara ekki út á móti sterku liði“.

Þá var Falur spurður að því hvað hann væri að segja við sína menn eftir þessa leiki.

„Við verðum að halda geðheilbrigði. Við spilum þrjá mjög góða leikhluta og héldum mestmegnis okkar leikáætlun í þrjá leikhluta en þeir hittu mjög vel í fyrsta leikhluta. Voru 6/8 í fyrsta leikhluta en 1/8 í öðrum leikhluta í þriggja stiga. Þeir eru náttúrlega með mjög gott lið og mörg vopn. Ég fer samt þokkalega sáttur frá þessum leik“.

Bein lýsing

Leikirnir
    Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.
    Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.