Lífið

Hvar er best að búa: Dönsku­kennari hjá rúss­neskum tölvu­leikjarisa á Kýpur

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar

„Mér finnst ég ekki alltaf vera að hlaupa á móti vindi eins og þegar ég var kennari. Það gat stundum verið erfitt að sannfæra nemendur um að það gæti verið gagnlegt að læra dönsku,“ segir Marina Dögg Pledel Jónsdóttir hlæjandi, en hún tók u-beygju á starfsferlinum fyrir nokkrum árum þegar hún fór úr kennslu yfir í tölvuleikjabransann. Dögg er viðmælandi Lóu Pind í þætti kvöldsins af Hvar er best að búa? Dögg er afar sátt við starf sitt sem ráðningarstjóri hjá Wargaming á Kýpur en það getur tekið á taugarnar eins og heyra má í broti úr þættinum sem hér fylgir.

Dögg hafði aðallega kennt dönsku í grunnskóla og framhaldsskóla þegar hún ákvað að læra mannauðsstjórnun og árið 2012 ákvað hún að nýta sér hið góða sumarfrí kennara til að láta reyna á þessa nýju gráðu. Hún hafði samband við nokkur fyrirtæki og bauð fram starfskrafta sína. CCP var eina fyrirtækið sem svaraði, þar vann hún á lágmarkslaunum um sumarið og var svo boðið starf um haustið. Nokkrum árum síðar varð röð tilviljana til þess að henni var boðið starf hjá hvítrússneska tölvuleikjafyrirtækinu Wargaming á Kýpur.

Fjölskyldunni allri var boðið að koma og skoða aðstæður á Kýpur áður en hún tók ákvörðun. Þar sem þau stóðu við klett ástargyðjunnar Afródítu á Kýpur ákváðu þau að láta slag standa. Dögg flutti svo út í október 2017 og eiginmaður hennar Sveinbjörn Ólafur Ragnarsson og sonur þeirra Sveinbjörn Lucas komu 10 mánuðum síðar í ágúst 2018.

Lóa Pind Aldísardóttir heimsótti Dögg, Sveinbjörn og Svenna Lucas ásamt Agli Aðalsteinssyni myndatökumanni fyrir þáttaröðina „Hvar er best að búa?“ og sjá má afraksturinn í 6. þætti sem er á dagskrá Stöðvar 2 í kvöld kl. 19:10. Í þessari 8 þátta seríu heimsækir Lóa Pind fólk og fjölskyldur í 9 löndum í fjórum heimsálfum.


Tengdar fréttir
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.