Handbolti

Þór ræður nýjan þjálfara og sækir liðs­styrk til Serbíu

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Þjálfarateymi Þórs.  Á myndinni eru Halldór Örn Tryggvason, Kristinn Ingólfsson, Þorvaldur Sigurðsson og Magnús Eggertsson, formaður handknattleiksdeildar Þórs.
Þjálfarateymi Þórs.  Á myndinni eru Halldór Örn Tryggvason, Kristinn Ingólfsson, Þorvaldur Sigurðsson og Magnús Eggertsson, formaður handknattleiksdeildar Þórs. Vísir/Skapti Hallgrímsson

Lið Þórs Akureyrar, sem leikur í Olís deild karla á komandi tímabili, hefur ráðið Þorvald Sigurðsson sem nýjan þjálfara liðsins ásamt því að hafa samið við Vuk Perovic.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá handknattleiksdeild Þórs. Þar segir meðal annars að Þorvaldur muni stýra liðinu ásamt Halldóri Erni Tryggvasyni sem er nú þegar þjálfari liðsins. 

Þeir Þorvaldur og Halldór Örn hafa stýrt yngri flokkum félagsins og náð þar góðum árangri. Þá var Þorvaldur mikils metinn sem leikmaður liðsins á sínum tíma. Eftir að hafa leikið og þjálfað gerðist hann formaður stjórnar handknattleiksdeildar Þórs en hann sagði því starfi lausu í vor og mun nú færa sig niður á hliðarlínu.

Þá hefur Þór ráðið Kristinn Ingólfsson sem styrktarþjálfara liðsins.

Leikmannahópurinn hefur einnig verið styrktur en Vuk Perovic mun leika með liðinu í vetur. Hann er 31 árs gamall og spilar sem hægri skytta enda örvhentur. Hann hefur leikið í Makedóníu, á Spáni sem og í Ungverjalandi á ferli sínum.

Olís deildin fer af stað 10. september og fer Þór í Mosfellsbæinn og leikur við Aftureldingu í fyrstu umferð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×