Körfubolti

Fyrrverandi leikmaður Keflavíkur látinn

Sindri Sverrisson skrifar
Stanley Robinson á flugi í Madison Square Garden í leik með University of Connecticut.
Stanley Robinson á flugi í Madison Square Garden í leik með University of Connecticut. VÍSIR/GETTY

Körfuknattleiksmaðurinn Stanley Robinson, fyrrverandi leikmaður Keflavíkur, er látinn, 32 ára að aldri.

Robinson varð 32 ára í síðustu viku. Móðir hans kom að honum látnum á heimili hans í Birmingham í Alabama. Dánarorsök er ókunn en í bandarískum miðlum er haft eftir lögreglu að ekkert bendi til þess að dauða Robinson hafi borið að með saknæmum hætti.

Robinson var stjörnuleikmaður í liði UConn Huskies í bandaríska háskólakörfuboltanum, vann 90 leiki með liðinu á árunum 2006-2010 og komst með því í Final Four árið 2009. „Hann er klárlega einn besti íþróttamaður sem ég hef þjálfað. Hann var ekki bara dáður af liðsfélögum sínum því allri sem hittu „Sticks“ [gælunafn Robinson] kunnu vel við hann. Hann verður alltaf Husky,“ sagði Jim Calhoun sem þjálfaði Robinson í háskólaboltanum.

Eftir útskrift var Robinson valinn af Orlando Magic í nýliðavali NBA-deildarinnar en félagið skipti honum svo út og eftir það lék Robinson meðal annars í Úrúgvæ, Síle og á Íslandi. Hann kom til Keflavíkur haustið 2017 og lék fimm leiki, undir stjórn Friðriks Inga Rúnarssonar, en yfirgaf svo félagið um áramótin.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.