Sport

Sara kom sjálfri sér á óvart og vann gull í KIA Silfurhringnum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Sara Sigmundsdóttir með gullverðlaunin sem hún vann á Laugarvatni um helgina.
Sara Sigmundsdóttir með gullverðlaunin sem hún vann á Laugarvatni um helgina. Skjámynd/Instagram

Íslenska CrossFit konan Sara Sigmundsdóttir kom fyrst í mark í sínum flokki í árlegu hjólakeppninni sem fór fram í kringum Laugarvatn um helgina.

CrossFit fólkið þarf að vera tilbúið í alla mögulegar æfingar í sínum keppnum og þar á meðal að hjóla. Æfingar og keppnir á hjóli hafa greinilega skilað sínu hjá Söru.

Sara Sigmundsdóttir kom fyrst í mark í flokki 20 til 29 ára í KIA Silfurhringnum með því að klára kílómetrana fimmtíu á einum klukkutíma, 47 mínútum og sex sekúndum.

Mótshaldarar þurftu reyndar að breyta leiðinni skömmu fyrir keppni og að þessu sinni var hjóla í vestur í Silfurhringnum frá Laugarvatni upp Lyngalsheiðina og í átt að Þingvöllum. Þaðan var síðan farið sömu leið til baka.

Sara sagði frá árangri sínum á Instagram: „Tók þátt í Silfurhringnum á laugardaginn og það gekk mun betur en ég hefði getað ímyndað mér,“ skrifaði Sara eins og sjá hér fyrir neðan.

Sara Sigmundsdóttir endaði í sjöunda sæti í opna flokki KIA silfurhringsins. Margrét Pálsdóttir vann KIA silfurhringinn í kvennaflokki, Helga Guðrún Ólafsdóttir varð önnur og Anna Cecilia Inghammar tók þriðja sætið.

Margrét Pálsdóttir kom í mark á einum klukkutíma, 33 mínútum og 27 sekúndum og var því rúmum tólf mínútum á undan Söru. Sara varð tæpum níu mínútum frá verðlaunapallinum í opnum flokki.

Sam Gateman vann KIA gullhringinn í karlaflokki, Huub Deelstra varð annar og Eyjólfur Guðgeirsson varð þriðji.

Elín Björg Björnsdóttir vann KIA gullhringinn í kvennaflokki, Hrefna Sigurbjörg Jóhannsdóttir varð önnur og Katrín Pálsdóttir varð þriðja.

Ole Bjorn Smisethjell vann KIA silfurhringinn í karlaflokki, Brynjar Örn Borgþórsson varð annar og Guðni Ásbjörnsson varð þriðji.

Guðmundur Arason Öfjörð vann KIA bronshringinn í karlaflokki, Yngvi Guðmundsson varð annar og Sigurður Grétar Ólafsson varð þriðji.

Þóra Katrín Gunnarsdóttir vann KIA bronshringinn í kvennaflokki, Kristín Pálsdóttir varð önnur og Elísabet Jónsdóttir varð þriðja.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.