Sport

„Augljóst að við þurfum að sjá þessa stöðu breytast næstu árin“

Júlíana Þóra Hálfdánardóttir skrifar

Stjórn Frjálsíþróttasambands Íslands þurfti að færa stærsta mót ársins í tvígang og loks milli landshluta með skömmum fyrirvara vegna óboðlegra aðstæðna á höfuðborgarsvæðinu. Formaður segir sveitafélögin ekki vera að standa sig.

Stærsta mót ársins í frjálsíþróttum, meistaramót Íslands átti að fara fram á Laugardalsvelli helgina 25. og 26. júlí en eins og fram kom í fréttum okkar í síðustu viku var ákveðið að færa mótið á Kópavogsvöll þar sem aðstæður á Laugardalsvelli stóðust ekki kröfur. Nú er svo komið að stjórn FRÍ hefur þurft með skömmum fyrirvara að færa mótið milli landshluta og mun það fara fram á Akureyri þar sem aðstæður og kröfur sambandsins fyrir því að mótið yrði haldið á Kópavogsvelli stóðust ekki.

„Völlurinn í Kópavogi uppfyllti ekki skilyrði. Það stóð til að koma honum í stand en því miður gaf Kópavogur það frá sér rétt á lokametrunum. Þá lentum við í þessari stöðu. 

Við þurfum að sjá þessa stöðu breytast næstu árin, það er algjörlega augljóst. Við þurfum að vinna með sveitarfélögum að uppbyggingu þar sem frjálsar eru teknar með í reikninginn. Við viljum eiga samtal, ekki lenda í uppákomum eins og hér þar sem kastaðstaðan er í raun ónýt þar sem var settur gervigrasvöllur inn á lendingarsvæði fyrir spjót og sleggju,“ sagði Freyr Ólafsson formaður FRÍ.

„Sem betur fer hafa sveitarfélögin staðið sig frábærlega og Kópavogur þar á meðal, Kópavogur er búinn að byggja þennan völl og hefur haldið honum vel við, þó svo að þeir hafi stigið þetta óheillaskref með því að setja gervigras á völlinn.“

Mikilvægt er að íslenskt frjálsíþróttafólk hafi aðgang að löglegum alþjóðarvelli en eins og staðan er í heiminum í dag vegna Covid-19 þá er ekki mikið um mót sem okkar fólk getur keppt á sem gefur rétt til þátttöku á til dæmis Ólympíuleikunum svo þessi möguleiki þarf að vera til staðar.

Viðtalið í heild sinni má sjá efst í fréttinni.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.