Skoðun

Blóma­skeið líf­rænnar mat­jurta­ræktar

Ragnheiður I. Þórarinsdóttir skrifar

Mikill fjöldi umsókna hefur borist Landbúnaðarháskóla Íslands fyrir næsta skólaár, bæði í háskólanám og starfsmenntanám skólans. Í mörgum af námsbrautum skólans voru met slegin í umsóknum og það er mikið gleðiefni að sjá hversu mikinn áhuga ungt fólk sýnir námi í Landbúnaðarháskóla Íslands og hversu dreifing umsókna er mikil.

Sérstaklega er ánægjulegt að sjá góða aðsókn í garðyrkjunám á Reykjum þar sem 136 umsóknir bárust og hafa þær aldrei verið jafnmargar í sögu skólans. Flestir sækja um í lífræna ræktun matjurta en þar sóttu 45 nemendur um nám. Aðsókn er einnig góð í ylrækt með 26 umsóknir og 10 í garð- og skógarplöntuframleiðslu. Aðeins er tekið inn á garðyrkjubrautir á tveggja ára fresti en aukning frá 2018 er um 45%.

Greinilegt er af fjölda umsókna í garðyrkjunámið, en einnig í nám við náttúru- og umhverfisfræðabraut að mikill áhugi er á sjálfbærri þróun og jafnvægi verndunar og nýtingar.

Áherslur ríkisstjórnarinnar í umhverfismálum falla einnig mjög vel að þessum aukna áhuga á lífrænni og sjálfbærri matjurtarækt. Uppfærð aðgerðaáætlun ríkisstjórnarinnar var nýlega birt og er að finna í henni metnaðarfull markmið um aukna grænmetisframleiðslu hér á landi með áherslu á kolefnishlutleysi hennar. Nánar tiltekið á að auka framleiðslu á íslensku grænmeti um 25% á næstu þremur árum, leggja aukið fjármagn í lífræna framleiðslu og vinna að því markmiði að íslensk garðyrkja verði kolefnishlutlaus eigi síðar en árið 2040.

Metnaðarfull markmið af þessu tagi kalla ekki aðeins á að fjármagni sé veitt til verksins, heldur að byggt sé á þekkingu sem orðið hefur til innan greinarinnar og í menntastofnunum á borð við Landbúnaðarháskólann og að bætt sé við þessa þekkingu með rannsóknum. Greinilegt er að stjórnvöld hafa skilning á þessu því í aðgerðaáætluninni er talað um að byggja þurfi upp þekkingu á losun og bindingu kolefnis, en einnig að auka þekkingu bænda með því að auka aðgang þeirra að beinni ráðgjöf og fræðslu.

Þessar áherslur stjórnvalda og mikill áhugi nemenda á umhverfisvænni, innlendri matvælaframleiðslu ríma vel við þá þróun sem merkja má í greininni almennt. Nýjar aðferðir og ný tækni eru nýtt í auknum mæli til að auka afköst og minnka kostnað - fjárhagslegan sem umhverfislegan - af ræktuninni. Ef rétt er haldið á spilunum gæti mikið blómaskeið íslenskrar matjurtaræktunar verið framundan.

Landbúnaðarháskólinn hefur mikilvægur hlutverki að gegna í þessari þróun. Í Garðyrkjuskólanum á Reykjum í Ölfusi er hjarta garðyrkjumenntunar og garðræktar á Íslandi. Fjölgun útskrifaðra nemenda og frekari uppbygging á náminu þar mun styðja vel við markmið stjórnvalda um aukningu í lífrænni og sjálfbærri matjurtarækt á Íslandi. Það er verkefni sem við í Landbúnaðarháskólanum hlökkum til að takast á við.

Höfundur er rektor Landbúnaðarháskóla Íslands.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Skoðun

Skoðun

Saman gegn ríkisofbeldi

Vilhjálmur Yngvi Hjálmarsson,Örlygur Steinar Arnaldsson,Sigurhjörtur Pálmason,Simon Valentin Hirt,Kristbjörg Arna E. Þorvaldsdóttir,Ari Logn,Margrét Rut Eddudóttir skrifar

Sjá meira


×