Handbolti

Handboltinn snýr aftur tíunda september - Patrekur byrjar gegn Íslandsmeisturunum sínum

Sindri Sverrisson skrifar
Patrekur Jóhannesson var þjálfari Selfoss þegar liðið varð Íslandsmeistari í fyrsta sinn í fyrra.
Patrekur Jóhannesson var þjálfari Selfoss þegar liðið varð Íslandsmeistari í fyrsta sinn í fyrra. VÍSIR/VILHELM

Það verða stórleikir á dagskrá þegar Íslandsmótið í handbolta hefst í september en HSÍ hefur birt leikjadagskrá fyrir tímabilið.

Í 1. umferð Olís-deildar karla taka Stjörnumenn, sem nú leika undir stjórn Patreks Jóhannessonar, á móti Selfyssingum. Selfoss varð Íslandsmeistari undir stjórn Patreks, í fyrsta sinn, fyrir rúmi ári síðan og er enn ríkjandi Íslandsmeistari eftir að ekki var leikin úrslitakeppni í vor vegna kórónuveirufaraldursins.

Í 1. umferðinni sækja jafnframt deildarmeistarar Vals lið FH heim í Kaplakrika í slag liðanna sem voru í efstu tveimur sætum Olís-deildarinnar þegar keppni var blásin af í vor. Áætlað er að fyrsta umferðin verði leikin 10. og 11. september en þá verða yfir 180 dagar liðnir frá síðasta leik í Olís-deildunum. ÍR mætir ÍBV, Afturelding mætir nýliðum Þórs Akureyri, og hinir nýliðarnir í Gróttu taka á móti Haukum. Þá mætast KA og Fram norðan heiða, í 1. umferðinni.

Hlé verður á Olís-deild karla frá 17. desember til 3. febrúar vegna jóla og HM í Egyptalandi, og einnig er áætlað að hlé verði frá 25. febrúar til 17. mars.

Í Olís-deild kvenna taka deildar- og bikarmeistarar Fram á móti HK í 1. umferð. Valskonur, sem eru enn ríkjandi Íslandsmeistarar, mæta Haukum á Hlíðarenda, ÍBV mætir KA/Þór og Stjarnan tekur á móti FH. Áætlað er að 1. umferðin hefjist 12. september.

Í 2. umferð er svo sannkallaður stórleikur á dagskrá þegar Valur og Fram mætast. Hjá konunum verður jólafrí frá 17. desember til 9. janúar en áætlað er að deildarkeppninni ljúki 27. mars. Deildarkeppni karla á að ljúka 10. apríl.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.