Handbolti

Handboltinn snýr aftur tíunda september - Patrekur byrjar gegn Íslandsmeisturunum sínum

Sindri Sverrisson skrifar
Patrekur Jóhannesson var þjálfari Selfoss þegar liðið varð Íslandsmeistari í fyrsta sinn í fyrra.
Patrekur Jóhannesson var þjálfari Selfoss þegar liðið varð Íslandsmeistari í fyrsta sinn í fyrra. VÍSIR/VILHELM

Það verða stórleikir á dagskrá þegar Íslandsmótið í handbolta hefst í september en HSÍ hefur birt leikjadagskrá fyrir tímabilið.

Í 1. umferð Olís-deildar karla taka Stjörnumenn, sem nú leika undir stjórn Patreks Jóhannessonar, á móti Selfyssingum. Selfoss varð Íslandsmeistari undir stjórn Patreks, í fyrsta sinn, fyrir rúmi ári síðan og er enn ríkjandi Íslandsmeistari eftir að ekki var leikin úrslitakeppni í vor vegna kórónuveirufaraldursins.

Í 1. umferðinni sækja jafnframt deildarmeistarar Vals lið FH heim í Kaplakrika í slag liðanna sem voru í efstu tveimur sætum Olís-deildarinnar þegar keppni var blásin af í vor. Áætlað er að fyrsta umferðin verði leikin 10. og 11. september en þá verða yfir 180 dagar liðnir frá síðasta leik í Olís-deildunum. ÍR mætir ÍBV, Afturelding mætir nýliðum Þórs Akureyri, og hinir nýliðarnir í Gróttu taka á móti Haukum. Þá mætast KA og Fram norðan heiða, í 1. umferðinni.

Hlé verður á Olís-deild karla frá 17. desember til 3. febrúar vegna jóla og HM í Egyptalandi, og einnig er áætlað að hlé verði frá 25. febrúar til 17. mars.

Í Olís-deild kvenna taka deildar- og bikarmeistarar Fram á móti HK í 1. umferð. Valskonur, sem eru enn ríkjandi Íslandsmeistarar, mæta Haukum á Hlíðarenda, ÍBV mætir KA/Þór og Stjarnan tekur á móti FH. Áætlað er að 1. umferðin hefjist 12. september.

Í 2. umferð er svo sannkallaður stórleikur á dagskrá þegar Valur og Fram mætast. Hjá konunum verður jólafrí frá 17. desember til 9. janúar en áætlað er að deildarkeppninni ljúki 27. mars. Deildarkeppni karla á að ljúka 10. apríl.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×