Körfubolti

Búðarferðir Michael Jordan í þá daga þurftu að vera úthugsaðar

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Michael Jordan í leik  með Chicago Bulls í fyrstu úrslitakeppninni þar sem hann fór alla leið.
Michael Jordan í leik  með Chicago Bulls í fyrstu úrslitakeppninni þar sem hann fór alla leið. Getty/ B Miller

Körfuboltamaðurinn Michael Jordan var svo vinsæll og svo frægur eftir að hann sló í gegn í NBA-deildinni að hann gat ekki farið neitt án þess að fólk þyrptist að honum úr öllum áttum.

Michael Jordan gerbreytti gengi Chicago Bulls um leið og hann steig inn á völlinn og fyllti fljótlega höllina í Chicago sem hafði verið hálftóm á árunum fyrir komu hans.

Fáir áttu svör við Michael Jordan inn á körfuboltavellinum á árum hans með Chicago Bulls og það var erfitt að finna frægari mann í heiminum en Jordan á síðasta áratug síðustu aldar.

Það gerði Michael Jordan hins vegar afar erfitt að lifa sínu daglega lífi enda aðdáendur hans alls staðar.

Brad Sellers, var liðsfélagi Michael Jordan hjá Chicago Bulls, á þessum upphafsárum en hann kom til Bulls á þriðja tímabili Jordan. Hann var vitni af því þegar Jordan breyttist úr strák nýkomnum úr háskóla í súperstjörnu. Sellers sagði Jerry Bembry hjá The Undefeated hvernig þetta var fyrir Jordan utan körfuboltavallarins.

„Við sáum MJ vera að þvo af sér í fyrstu þáttunum og þannig var hann þá. Hann var bara eins og venjulegur náungi,“ sagði Brad Sellers og vitnaði í þættina „The Last Dance“ sem svo margir sáu.

„Þegar hann varð stærri og stærri í körfuboltaheiminum þá kom að því að hann gat ekki lengur farið út af heimilinu sínu. Ég man eftir því að hafa spurt hann einu sinni: Herðu M, hvernig borðar þú?,“ sagði Brad

„Hann sagði mér þá að hann gat hringt í Jewel-Osco [Verslunarkeðja] um fimmtán mínútum áður en þeir lokuðu til að láta þá vita að hann væri að koma. Þeir höfðu þá opið aðeins lengur til þess að leyfa honum að versla,“ sagði Brad og starfsmenn búðarinnar fengu ekki aðeins sjálfan Michael Jordan í heimsókn til sín heldur gaf hann þeim líka gott þjórfé fyrir að vinna aðeins lengur.

„Hann var ekki að hala inn 30 milljónir dollara á þessum tíma og ég held að hann var þarna að fá minna en milljón á ári. Það var samt mikill peningur og hann passaði sig á því að launa fólki greiðann,“ sagði Brad Sellers.

NBA


Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.