Sport

„Öldungurinn“ Ásdís byrjar á Norðurlandameti og sínu lengsta kasti í þrjú ár

Sindri Sverrisson skrifar
Ásdís Hjálmsdóttir byrjar lokakeppnistímabil sitt af krafti.
Ásdís Hjálmsdóttir byrjar lokakeppnistímabil sitt af krafti. VÍSIR/GETTY

Ásdís Hjálmsdóttir, Íslandsmethafi í spjótkasti, átti sitt lengsta kast í tæp þrjú ár þegar hún keppti á móti í Svíþjóð í gær.

Ásdís kastaði 61,24 metra og er það sjöunda lengsta kast ársins í heiminum. Hún setti jafnframt vallarmet og mótsmet á vellinum í Södertälje. Ásdís er auk þess orðin gjaldgeng í flokk öldunga, þar sem hún verður 35 ára á árinu, og bætti hún Norðurlandamet öldunga með kastinu í gær.

Íslandsmet Ásdísar er 63,43 metrar frá árinu 2017.

Ásdís hefur ákveðið að leggja spjótið á hilluna eftir þetta keppnistímabil, en þá ákvörðun hafði hún tekið áður en að Ólympíuleikunum og EM var frestað.

Keppni í frjálsum íþróttum hófst að nýju í Svíþjóð um helgina eftir hlé vegna kórónuveirufaraldursins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×