Erlent

Kallar þúsundir hermanna heim frá Þýskalandi

Andri Eysteinsson skrifar
Donald Trump, hér á fundi með Angelu Merkel, kanslara Þýskalands, ætlar að minnka verulega þann fjölda hermanna sem staðsettir eru í Þýskalandi.
Donald Trump, hér á fundi með Angelu Merkel, kanslara Þýskalands, ætlar að minnka verulega þann fjölda hermanna sem staðsettir eru í Þýskalandi. Getty/Ralf Hirschberger

Forseti Bandaríkjanna hefur fyrirskipað hernaðaryfirvöldum í Pentagon að kalla heim þúsundir bandarískra hermanna sem staðsettir hafa verið í herstöðvum í Þýskalandi. Viðvera bandarískra hermanna í Þýskalandi á sér langa sögu og þykir táknræn fyrir stuðning Washington við evrópska bandamenn sína.

Politico greinir frá því að forsetinn vilji að ekki verði fleiri en 25.000 bandarískir hermenn staðsettir í Þýskalandi og þyrfti því að kalla um 9.700 hermenn heim til Bandaríkjanna, nærri 30% bandaríska heraflans. Þetta hefur miðillinn eftir ónefndum starfsmönnum og fyrrverandi starfsmönnum innan ríkisstjórnarinnar.

Í byrjun apríl voru samkvæmt skýrslu Pentagon 34.674 bandarískir hermenn staðsettir í Þýskalandi, þar af voru 20.774 úr landgönguliði og 12.980 úr bandaríska flughernum. Þá starfa um 19.000 til viðbótar á bandarískum herstöðvum og þykir víst að skera verður niður fjölda starfsmanna eftir að hermenn verða kallaðir heim.

Með fækkun hermanna í Evrópu er snúið við þeirri þróun sem hefur orðið síðustu ár með fjölgun bandarískra hermanna sem talin er hafa verið sett til höfuðs Rússum. Aðalritari norður-atlantshafsbandalagsins, Jens Stoltenberg, hefur neitað fyrir það að Bandaríkjaforseti hafi ekki áhuga á starfi Bandaríkjanna innan NATO en forsetinn hefur gagnrýnt bandalagið og sérstaklega ríki þess sem ekki greiða jafnmikið til bandalagsins og Bandaríkjamenn gera.

Stoltenberg hefur bent á það að með fækkun Bandarískra hermanna í Evrópu hljóti yfirvöld í Rússlandi að kætast.

Politico greinir frá því að yfirmönnum hjá NATO hafi ekki verið gert viðvart um áform bandarísku stjórnarinnar.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×