Körfubolti

Haukar halda áfram að bæta við sig leikmönnum

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Hilmar er mættur aftur í Hafnafjörðinn.
Hilmar er mættur aftur í Hafnafjörðinn. Vísir/Haukar

Haukar tilkynntu í gær að Hilmar Pétursson muni leika með liðinu í Domino´s deild karla á næstu leiktíð. Er þetta annar leikmaðurinn sem Haukar fá á síðustu dögum en miðherjinn Ragnar Nathanaelsson samdi við félagið fyrir skömmu.

Hilmar er uppalinn hjá Haukum og eftir tvö ár í Kópavoginum hjá Breiðablik þá er hann spenntur fyrir komandi tímabili.

„Ég er virkilega glaður að vera kominn aftur heim í Hauka og er mjög spenntur að geta farið að byrja að æfa og spila á ný og að takast á við næstu áskorun,“ sagði Hilmar.

Þá er Israel Martin, þjálfari liðsins, spenntur að fá Hilmar í sínar raðir og segir hann hafa þroskast mikið á tíma sínum hjá Blikum.

„Ég er mjög ánægður að fá Hilmar aftur. Hann er orðinn þroskaðri leikmaður en hann átti mjög gott tímabil í fyrra með Breiðablik og ég er viss um að hann bæta miklu við leik okkar næsta vetur.“

Haukar voru í 6. sæti Domino´s deildar karla á síðustu leiktíð áður en tímabilinu var aflýst vegna kórónufaraldursins. Það er ljóst að Martin stefnir á að koma liðinu ofar í töfluna á næstu leiktíð.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×