Handbolti

Geir á heimleið og í Hafnarfjörðinn

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Geir og félagar í Cesson-Rennes unnu frönsku B-deildina í vetur.
Geir og félagar í Cesson-Rennes unnu frönsku B-deildina í vetur. vísir/getty

Handboltamaðurinn Geir Guðmundsson er á heimleið. Þetta staðfesti hann í Sportinu í dag. Geir, sem er 26 ára örvhent skytta, hefur leikið með Cesson-Rennes í Frakklandi síðan 2016. Tímabilinu þar í landi er lokið.

„Það var mikill léttir þegar þeir gáfu loksins út að tímabilið væri búið. Þá gat maður farið að huga að heimferð,“ sagði Geir í samtali við Henry Birgi Gunnarsson.

Geir vildi ekki gefa upp í hvaða lið hann færi á Íslandi en í Sportinu í dag greindi Henry frá því að hann færi til Hauka. Þeir eru þegar búnir að tryggja sér starfskrafta landsliðsmarkvarðarins Björgvins Páls Gústavssonar fyrir næsta tímabil. 

Haukar enduðu í 4. sæti Olís-deildar karla en voru á toppnum um áramótin. Þeir fengu 27 stig í 20 leikjum, þremur stigum minna en deildarmeistarar Vals.

Geir hóf ungur að leika með Akureyri en fór til Vals 2013. Hann varð bikarmeistari með Valsmönnum 2016 áður en hann hélt í víking til Frakklands.

Tímabilið í Frakklandi var flautað af í gær. Geir og félagar í Cesson-Rennes unnu B-deildina og endurheimtu sæti sitt í úrvalsdeildinni sem verður skipuð sextán liðum á næsta tímabili.

Sportið í dag er á dagskrá á Stöð 2 Sport alla virka daga klukkan 15.00. Upptökur af fyrri þáttum má nálgast á sjónvarpsvef Stöðvar 2. Stöð 2 Sport er hluti af Sportpakkanum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×