Innlent

Bjölluóður utanbæjarmaður eyddi öllu í vín og villtar meyjar

Líklega litu öll háhýsin eins út í drukknum augum utanbæjarmannsins.
Líklega litu öll háhýsin eins út í drukknum augum utanbæjarmannsins.
Bjölluónæði er hvimleitt og ekki síst ef það á sér stað að næturlagi. Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu er stundum kölluð til í slíkum málum, og svo var einmitt raunin þegar íbúum fjölbýlishúss í Kópavogi var nóg boðið á dögunum.

Þar hafði maður á miðjum aldri ýtt á flestar ef ekki allar dyrabjöllur hússins með tilheyrandi ónæði fyrir íbúana. Enginn þeirra þekkti til mannsins og ekki var vitað hvað honum gekk til enda maðurinn þvoglumæltur mjög og því fóru útskýringar hans fyrir ofan garð og neðan.

Lögreglumenn á vettvangi sáu hins vegar strax að maðurinn hafa fengið sér hressilega neðan í því og virtist hafa villst af leið. Hann átti vísa gistingu á hóteli í miðborg Reykjavíkur og taldi sig vera að reyna að komast inn á þetta sama hótel.

Manninum var ekið þangað, en hann hugðist halda til síns heima á landsbyggðinni, daginn eftir. Sjálfsagt hefur það gengið brösuglega því maðurinn var orðinn auralaus þegar lögreglan ók honum á hótelið, en hann sagðist hafa sólundað öllum peningunum sínum í vín og villtar meyjar, fyrr um kvöldið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×