Innlent

Ríkisstjórnin ver milljónum til björgunarstarfa um helgina

BBI skrifar
Mynd úr safni.
Mynd úr safni. Mynd/Bryngeir
Ríkisstjórnin samþykkti í dag að verja 8 milljónum króna til björgunarstarfa um næstu helgi vegna óveðursins á Norðausturlandi fyrr í mánuðinum. Enn er talið að um 5.500 kindur og lömb séu týnd á hálendinu.

Almannavarnir ríkislögreglustjóra hafa skipulagt aðgerðir fyrir næstu helgi til að aðstoða bændur við leitina. Horfur eru á að um 100 manns taki þátt í þeim aðgerðum og verður þyrla Landhelgisgæslunnar leitarfólki innan handar ef vel viðrar til flugs.

Þessar aðgerðir eru aftur á móti kostnaðarsamar en nú hefur ríkisstjórnin samþykkt að verja 8 milljónum króna til þeirra. Líkur eru á því að átakið dragi verulega úr tjóni bænda og minnki þannig kostnað ríkisins óbeint, en í minnisblaði Almannavarna ríkislögreglustjóra kemur fram enn séu 5.500 kindur á fjalli og að tjón bænda verði verulegt ef ekki tekst að finna þær.

Ríkisstjórninni þykir einnig mikilvægt að senda skýr skilaboð um samstöðu samfélagsins við þá sem eiga um sár að binda eftir hamfarirnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×