Lífið

Reykjavík Shorts and Docs

Stuttmyndahátíðin Reykjavík Shorts & Docs hefst á morgun og stendur til 29. maí. Á hátíðinni verða sýndar 13 nýjar íslenskar myndir sem er met í sögu hátíðarinnar. Hátíðin, sem nú verður haldin í fjórða sinn, hefur skapað sér sérstöðu sem vettvangur fyrir íslenska höfunda stutt- og heimildamynda til að frumsýna verk sín. Að þessu sinni verða sýndar 5 íslenskar heimildamyndir og 9 stuttmyndir og er sérstök ástæða til að nefna stuttmynd Gríms Hákonarsonar, Slavek the Shit, sem hefur fyrst íslenskra stuttmynda verið valin til keppni um Gullpálmann í flokki stuttmynda á Cannes kvikmyndahátíðinni í maí n.k. Opnunarmynd heimildamyndahlutans verður ný heimildamynd Ásthildar Kjartansdóttur um myndlistarkonuna Rósku. Aðaldagskrá hátíðarinnar er þríþætt eins og fyrr. 1. Íslenskar heimilda- og stuttmyndir. Í þessum flokki verða sýndar 14 myndir, þar af þrettán frumsýndar.2. Myndir frá ýmsum löndum. Í þessum eru sýndar 16 myndir frá 13 löndum sem allar eiga að það sammerkt að hafa vakið mikla athygli; margar þeirra hafa unnið eftirsótt verðlaun á kvikmyndahátíðum.3. Nordisk Mini-Panorama, Norrænar verðlaunamyndir. Á Nordisk Mini-Panorama eru sýndar verðlaunamyndir af Nordisk Panorama Five Cities Film Festival í samvinnu við Filmkontakt Nord. Að þessu sinni er fyrirhugað að auka við starfsemi hátíðarinnar og veita verðlaun fyrir bestu íslensku myndirnar í báðum flokkum. Það von aðstandenda að þessi nýjung gagnist við kynningu á verkum verðlaunahafa, enda geta verðlaun á kvikmyndahátíðum haft jákvæð áhrif á dreifingarmöguleika stutt- og heimildamynda, eins og annarra kvikmyndaverka. Jafnframt eru verðlaunin hugsuð sem hvatning til þeirra kvikmyndagerðarmanna sem sinna stutt- og heimildamyndum. Samstarfs- og styrktaraðilar hátíðarinnar eru Kvikmyndamiðstöð Íslands, Menningarmálanefnd Reykjavíkurborgar, NFTF Norræni kvikmynda- og sjónvarpssjóðurinn, Filmkontakt Nord, 66° Norður, Íslandsbanki o.fl. Heimasíða hátíðarinnar





Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.