Erlent

Fjölmiðlavald fjöldans

Rupert Murdoch, sem á og stýrir News Corporation, einni stærstu fjölmiðlasamsteypu veraldar, flutti nýverið bandarískum dagblaðaritstjórum boðskap sinn um framtíð dagblaða. Murdoch sagði meðal annars að of margir ritstjórar og blaðamenn væru ekki lengur í góðum tengslum við lesendur. "Það er engin furða að margir, einkum af yngri kynslóðinni, segi skilið við dagblöðin. Fólk á þrítugs- og fertugsaldri kærir sig ekki lengur um að láta einhvern segja sér hvað máli skipti, hvað sé mikilvægt... Og það vill alls ekki fá fréttirnar matreiddar sem eitthvert fagnaðarerindi." Murdoch kvað ritstjóra og blaðamenn hafa sýnt einstaklega mikið andvaraleysi. Tímaritið Economist, sem fjallaði um erindi Murdochs nýverið, segir að hugsanlega marki ræða Murdochs upphaf þess tíma þegar dagblöðin vöknuðu og fóru að gera sér grein fyrir veruleika netbyltingarinnar og vildu í senn verða netvæn og netkæn. Murdoch gengur að því vísu að lesendum dagblaða fækki um heim allan og þar með minnki auglýsingatekjur þeirra. Samkvæmt upplýsingum Alþjóða dagblaðasambandsins, World Association of Newspapers, minnkaði dreifing dagblaða í Bandaríkjunum um 5 prósent á árunum 1995 til 2003. Á sama tíma fækkaði eintökum í umferð um 3 prósent í Evrópu og um 2 prósent í Japan. Á sjöunda áratugnum lásu fjórir af hverjum fimm Bandaríkjamönnum dagblað á hverjum degi. Aðeins helmingur þeirra lítur daglega í dagblað nú. Frumbyggjar og innflytjendur í netheimum Netvæðingin er undanfari hnignunar dagblaða. Með breiðbandi eykst burðargeta og hraði á netinu. Rupert Murdoch telur að þetta breyti fjölmiðluninni á þann hátt sem eldri keppinautar dagblaðanna, útvarp og sjónvarp, gátu aldrei gert. Eldri kynslóðinni, sem Murdoch kallar innflytjendur í netheimum, hefur ef til vill sést yfir þetta. En unga fólkið, frumbyggjarnir í netheimum, fá fréttirnar í auknum mæli með leitarvélum á borð við Yahoo eða Google eða um aðrar gáttir veraldarvefsins. Nefna má bloggið, dagbókarskrifin á vefnum. Meirihluti Bandaríkjamanna hefur ekki heyrt bloggið nefnt og aðeins 3 prósent lesa slíkt daglega. Um 44 prósent Bandaríkjamanna á aldrinum 18 til 29 ára eru aftur á móti tengd blogginu dag hvern. Bloggið er aðeins eitt þeirra tóla og tækja sem tiltæk eru til boðskipta á vefnum. Wiki heitir vefsíðusamfélag á netinu þar sem notendur geta lagt til efni og ritstýrt því sjálfir. Þetta þykir eldra fólki, netheimainnflytjendum, hljóma líkt og stjórnleysi og óreiða. Eða þar til það heimsækir alfræðivefinn wikipedia.org. Wikipedia vex með degi hverjum, einmitt með grasrótarsamstarfi fólks sem þekkist ekkert innbyrðis. Bloggfréttaþjónusta Litla kísilflöguspilara (iPod), sem tölvurisinn Apple hefur sett á markað, mætti kalla tónbelgi. Unnt er að fylla tónbelginn af tónlist og tappa af honum inn á tölvur eða netið þannig að aðrir geta nálgast tónlistarefnið. Með þessu móti er hægt að stunda tónbelgjavarp á netinu. Blogg með myndir sækir einnig í sig veðrið og myndbandablogg er að hefjast. Það er freistandi fyrir hefðbundna miðla að gera lítið úr þessari þróun. Til dæmis er haft fyrir satt að megnið af netbloggi sé ekki þess virði að lesa það. Og það er í rauninni ekki lesið. Sama á reyndar við um hefðbundna miðla eins og dagblöð, segir Rupert Murdoch. Engu að síður leika bloggarar æ stærra hlutverk. Vinsælir og vandaðir bloggararnir fá allt eins margar heimsóknir á vefsíður sínar eins og þekktir fjölmiðlar fá. Það er hættuleg en algeng tugga að telja bloggara einskonar snýkjudýr á hefðbundnum fréttamiðlum og þar af leiðandi séu þeir engin ógnun við hefðbundna fjölmiðla. Rétt er að margir þeirra fást við að afsanna, andmæla eða greina það sem áður hefur verið birt í hefðbundnum fjölmiðlum. Að þessu leyti eru bloggheimar einskonar framlenging á hefðbundnum fjölmiðlum. Ekkert kemur hins vegar í veg fyrir að bloggarar taki upp venjulega fréttaöflun. Glenn Reynolds helgar sig stjórnmálabloggi á vefnum instapuntit.com. Á góðum degi eru notendur síðunnar um 250 þúsund og margir þeirra eru eins og hverjir aðrir fréttaritarar og segja frá viðburðum sem þeir hafa sjálfir orðið vitni að í Afganistan eða Kína. "Grundvallarhugmyndin er sú, að fólk skapar eigið innihald hafði það tækin til þess," segir Dan Gillmor, en hann er upphafsmaður að grasrótarfjölmiðlun í San Franscisco og höfundur bókarinnar We the Media. Tvær milljónir manna nota Ohmy News í Suður Kóreu. Ohmy hefur í sinni þjónustu um 33 þúsund borgara en þeir vinna sem venjulegir fréttaritarar. Í miðstöð Ohmy starfa nú um 50 manns, einkum við að kanna heimildir og sannleiksgildi þess efnis sem inn á vefinn berst. Gerjun og nýjar viðskiptahugmyndir Þegar svo margar nýjar leiðir opnast við hlið eldri tegunda blaðamennsku verður að teljast líklegt að upp spretti nýjar viðskiptahugmyndir sem ögra gömlu fjölmiðlunum. Samskipti bloggara og leitarfyrirtækjana Yahoo eða Google geta leitt til nýrrar skiptingar auglýsingatekna. Sumir bloggarar leyfa Google að hlekkja auglýsingar við þeirra stað á vefnum og fá þannig greiðslu fyrir hverja heimsókn. Aðrir krefjast áskriftargjalds. Enn aðrir eru með einskonar söfnunarbauka á netinu. Þar getur lesandinn sett lítilræði í bauk þess höfundar sem hann kýs að lesa. Á endanum verður spurt hvort gömlu dagblöðin bregðist nægilega hratt við og elti auglýsingatekjurnar inn í rafrænu miðlana. Rupert Murdoch heldur því fram að mörg dagblöð geti vafalítið stýrt framhjá stærstu skerjunum ef þau færa sér tækninýjungar í nyt. Þau ættu að geta nýtt nýju tæknina til þess að ná með betri hætti til ákveðinna markhópa eða staða. Enn um sinn er þó margt á huldu um það hvernig tekjulindir fjölmiðlanna munu skiptast milli nýrra og eldri gerða fjölmiðla. Svo mikið er þó ljóst, segir Rupert Murdoch, að valdið yfir fréttamiðluninni og öllu sem henni tilheyrir, valdið yfir fréttamatinu og því sem fréttamiðlarnir flokka sem staðreyndir, er með hárfínum og lymskulegum hætti að flytjast frá framleiðendum fréttanna til áheyrendanna og notendanna sjálfra. Rupert Murdoch segir fullum fetum að dagblöðin verði eftirleiðis að skoða hlutverk sitt sem tæki til fréttaöflunar og fréttavinnslu óháð gömlu leiðunum til að dreifa þeim á pappír.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×