Innlent

Erfitt að slíta ungabarn frá óregluforeldrum

Nanna Hlín skrifar
Hrefna Friðriksdóttir, lögfræðingur hjá Barnaverndarstofu
Hrefna Friðriksdóttir, lögfræðingur hjá Barnaverndarstofu

Aðstæður og aldur barns ráða miklu þegar tekin er ákvörðun til þess hvort taka eigi barn af foreldrum í tilfelli sem því þegar par með fjögurra mánaða gamalt barn var tekið með 180 grömm af hassplötum í fyrradag.

„Þegar svona mál koma upp verður fyrst að vega og meta hvort brýnt sé að grípa strax til einhverra aðgerða. Það er metið út frá ýmsu, hvort til séu upplýsingar um viðkomandi aðila fyrir eða hvort málið sé nýtt," segir Hrefna Friðriksdóttir lögfræðingur hjá Barnaverndarstofu.

Hrefna segir nauðsynlegt að vera vakandi fyrir stöðu beggja foreldra. „Þarft er að skoða bakgrunninn, hver staða foreldra sé á þessari stundu og hvað þeim finnst um næsta skref. Það getur komið til álita að fólk vilji sjálft reyna að axla ábyrgð á stöðunni, hafa samband við traustan aðila og takast á við uppeldishlutverkið með þeim aðila."

„Ef staða foreldra er mjög slæm og engin skynsamleg viðbrögð frá þeim varðandi aðstæður hafa barnavernaryfirvöld ávallt heimild til að taka barn tafarlaust úr umsjón foreldris og koma því fyrir einhvers staðar. Þetta þarf að meta stig af stigi, best er að taka ákvarðanir í stuttan tíma í einu," segir Hrefna.

Hrefna nefnir að þegar brot eru framin þurfi einnig að taka tillit til hvort foreldrar séu úrskurðaðir í gæsluvarðahald og svo hvort þeir séu dæmdir í fangelsi. „Að foreldri velji sér svona hætturlegan lífstíl er grafalvarlegt mál. Það hlýtur að gefa vísbendingar um að þetta fólk hafi ekki nægilegan skilning á þörfum barnsins að það hafi haft barnið með sér," segir Hrefna um hið nýlega tilfelli.

Hún segir þó að erfitt sé að segja af eða á með slíkt fyrr en að vandlega hugsuðu máli. Að auki er mjög mikilvægt að taka tillit til aldur barnsins að hennar sögn. „Fjögurra mánaða barn gerir sér ekki grein fyrir því hvað það er og hefur aðrar þarfir um öryggi en eldra barn. Mikilvægast er fyrir svo gamalt barn að hafa einhvern sem það þekkir, rútínu og síðast en ekki síst næringu. Æskilegt er að reyna að leyfa barninu að vera hjá móðurinni ef hún hefur haft það á brjósti."

Markmið laganna er að aðstoða foreldra og grípa aldrei til harkalegri aðgerða gegn foreldrum en þeirra sem þarfir barnsins krefjast. Markmiðið er ekki að refsa foreldrum en barnaverndaryfirvöld taka eins stórar ákvarðanir og þörf er á.




Tengdar fréttir

Par sem var tekið fyrir vörslu hassplatna enn með barnið

Karlmaðurinn og konan sem voru handtekin í fyrrinótt í Reykjanesbæ með 180 grömm af hassplötum og fjögurra mánaða gamalt barn sitt var sleppt úr haldi í dag. Er parið enn með barnið undir sinni forsjá.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×