Viðskipti innlent

Landsvirkjun tapar milljörðum á samdrætti Rio Tinto

Birgir Olgeirsson skrifar
Álverið í Straumsvík.
Álverið í Straumsvík. Vísir/vilhelm

Stjórnendur Rio Tinto í Straumsvík tilkynntu í lok janúar að fyrirtækið stefndi að því að framleiða um 184 þúsund tonn af áli í ár. Í fyrra framleiddi Rio Tinto 212 þúsund tonn af áli og því samdráttur upp á rúm þrettán prósent.

Forstjóri Rio Tinto á Íslandi, Rannveig Rist, vildi ekki veita fréttastofu viðtal vegna þessarar ákvörðunar. Ljóst er að hún mun hafa talsverð áhrif á rekstur Landsvirkjunar.

„Áhrifin eru fyrst og fremst það að raforkusalan okkar dregst saman um sem því nemur sem eru um 3,5 prósent ef við horfum til heildarframleiðslunnar. Tekjuáhrifin á okkur eru um 20 milljónir dollara eða um 2,5 milljarðar króna,“ segir Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunnar.

Í fyrra þurfti að slökkva á einum af þremur kerskálum álversins í Straumsvík vegna ljósboga sem myndaðist þar. Tekjutap Landsvirkjunar vegna þeirrar stöðvunar í fyrra nam um 1,24 milljörðum króna.

Hörður segir að Landsvirkjun ætli að gera allt sem í hennar valdi stendur til að sýna aðhald í rekstri svo lágmarka megi áhrifin sem minni álframleiðsla hjá Rio Tinto mun hafa í ár á fyrirtækið.

„Tímabundin áhrif sem eru hjá þeim eftir því sem okkur virðist og kemur okkur ekki á óvart er að staðan á álmörkuðum hefur verið mjög erfið, sérstaklega á síðasta ári. Það var samdráttur í eftirspurn og síðan hefur það það leitt til þess að verð sem að fæst fyrir þær afurðir sem álverin eru að framleiða hefur lækkað umtalsvert þannig að þetta eru kannski eðlileg viðbrögð við lækkandi verði og minnkandi eftirspurn,“ segir Hörður.

Hörður bendir á að hægt hafi á hagkerfum heimsins sem valdi minni eftirspurn. Þá hefur álframleiðsla í Kína vaxið úr 10 prósentum frá árinu 2000 og upp í 60 prósent í fyrra. Hörður segir þetta ekki hafa áhrif á virkjanaáform Landsvirkjunar.

„Það er mjög algengt að framleiðsluiðnaður eins og áliðnaður sveiflist og við gerum ráð fyrir að hann rétti úr sér og langtímahorfur fyrir iðnaðinn eru góðar.“


Tengdar fréttir


Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.