Körfubolti

Shaquille O'Neal: Við eigum að aflýsa þessu NBA tímabili

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Shaquille O'Neal varð fjórum sinnum NBA-meistari, þrisvar með Los Angeles Lakers og einu sinni með Miami Heat.
Shaquille O'Neal varð fjórum sinnum NBA-meistari, þrisvar með Los Angeles Lakers og einu sinni með Miami Heat. Getty/Stephen Dunn

NBA-goðsögnin Shaquille O'Neal hefur mjög sterkar skoðanir á því hvað NBA-deildin eigi að gera með tímabilið 2019-20. Shaq vill ekki reyna að bjarga tímabilinu.

NBA-deildin í körfubolta er enn að leita leiða til að klára tímabilið, þá leiki sem eru eftir af deildarkeppninni og taka svo úrslitakeppnina í beinu framhaldi.

Það hefur jafnframt verið rætt að breyta fyrirkomulagi úrslitakeppninnar til að koma henni fyrir á styttri tíma. Óvissan er hins vegar mikil í Bandaríkjunum þar sem baráttan við kórónuveiruna gengur ekki nógu vel.

„Allir eiga bara að fara heim til sín, ná heilsu og koma til baka á næsta tímabili,“ sagði Shaquille O'Neal en hann starfar núna sem körfuboltaspekingur á TNT sjónvarpsstöðinni.

„Að reyna að koma til baka núna og keyra í gegn úrslitakeppnina í einhverjum flýti. Það lið sem myndi vinna NBA titilinn í ár fengi alltaf þennan titil stjörnumerktan,“ sagði Shaquille O'Neal.

„Hvað gerist ef að lið sem er ekki álitið vera með í baráttunni tekur allt í einu upp á því að vinna þökk sé þessu nýja fyrirkomulagi. Það mun enginn bera virðingu fyrir því,“ sagði O'Neal.

„Eina vitið er að aflýsa þessu tímabili. Við skulum frekar hafa áhyggjur af öryggi stuðningsmannanna og fólksins. Komum bara til baka á næsta tímabili,“ sagði Shaq.

„Ég skil samt vel hvernig leikmönnum liður. Ég geri það. Ég er samt tilbúinn að bíða þar til að allt verður hundrað prósent eðlilegt á nýjan leik,“ sagði Shaq.

„Það þarf bara einn einstakling til. Eftir leikina þá þarftu að fara heim til þín. Hvað ef einhver einn veikist. Þú þurftum við að byrja aftur upp á nýtt,“ sagði Shaquille O'Neal.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×