Viðskipti innlent

Sjá fram á lengri kórónuveirukreppu

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Fækkun ferðamanna hefur komið illa niður á íslenskum fyrirtækjum, ekki síst fyrirtækjum í ferðaþjónustu eins og gefur að skilja. Þess má vænta að krafa um tveggja vikna sóttkví við komuna til landsins verði framlengd um mánuð.
Fækkun ferðamanna hefur komið illa niður á íslenskum fyrirtækjum, ekki síst fyrirtækjum í ferðaþjónustu eins og gefur að skilja. Þess má vænta að krafa um tveggja vikna sóttkví við komuna til landsins verði framlengd um mánuð. Vísir/vilhelm

Forsvarsmenn fyrirtækja innan vébanda Samtaka atvinnulífsins áætla að frekari uppsagnir séu væntanlegar vegna kórónuveirufaraldursins. Sé mið tekið af könnun sem SA framkvæmdi meðal forstöðumannanna má ætla að uppsagnir muni ná til um 3,2 prósenta starfsmanna þeirra, sé það heimfært á hagkerfið í heild gæti það samsvarað um 5600 uppsögnum.

Könnun SA var framkvæmd dagana 22. apríl til 4. maí. Sé hún borin saman við sambærilega könnun sem samtökin gerðu meðal félagsmanna sinna í lok mars má sjá að umtalsvert meiri svartsýni gætir í svörum forstöðumannanna.

Þannig gerðu flestir þeirra ráð fyrir að kreppa vegna kórónuveirunnar myndi standa í á bilinu 3 til 7 mánuði þegar þeir voru spurðir í mars lok. Nýja könnunin sýnir hins vegar að forstöðumennirnir búa sig í dag undir lengri kreppu, að jafnaði gera þeir ráð fyrir að hún muni standa yfir í ár.

Kórónuveiran er sögð hafa lækkað tekjur um 70 prósent fyrirtækja í íslensku atvinnulífi í síðasta mánuði, sé hana borinn saman við aprílmánuð í fyrra. Fjórðungur fyrirtækja hafi þannig sé rúmlega 75 prósent tekna sinna fuðra upp og tíunda hvert fyrirtæki horft upp á helmings samdrátt. Mestur samdráttur var meðal fyrirtækja í ferðaþjónustu.

Könnunina, sem Maskína framkvæmdi fyrir SA, má nálgast hér. Spurningar voru lagðar fyrir 1.800 forsvarsmenn fyrirtækja sem eiga aðild að SA og svöruðu 686, sem gerir 37 prósent svarhlutfall. Starfsmenn fyrirtækjanna sem tóku þátt eru um 40 þúsund sem svarar til tæplega 30 prósent starfsmanna í viðskiptahagkerfinu.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×